Skora á ríkið að hækka sóknargjöld

Grensáskirkja.
Grensáskirkja. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Leikmannastefnan 2013 skorar á stjórnvöld að hlutast til þess að sóknargjöld verði leiðrétt.
 
Leikmannastefna þjóðkirkjunnar sem haldin var í Grensáskirkju í dag vill árétta enn einu sinni að ríkið hefur með einhliða ákvörðunum á síðustu árum tekið sífellt stærri hluta innheimts sóknargjalds til sín. Það hefur verið réttlætt af ríkisvaldinu annars vegar með miklum niðurskurði ríkistekna vegna bankahrunsins og hins vegar með því að hér sé um að ræða framlag sem ríkið hafi fullt sjálfdæmi um sem er fjarri sanni.

Leikmannastefnan lýsir verulega þungum áhyggjum af þessari þróun, enda er um að ræða félagsgjöld sóknanna sem er grundvöllur kirkjustarfsins í heimabyggð. Er nú svo komið að illmögulegt er að halda úti grunnstarfi í mjög mörgum sóknum Íslands, þar sem laun og annar nauðsynlegur rekstrarkostnaður auk fjármagnskostnaðar hefur hækkað verulega á þessu tímabili.

Leikmannastefnan vekur athygli á áliti sem nefnd á vegum innanríkisráðherra skilaði af sér á síðastliðnu ári þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sóknargjöld hafa lækkað um 20% frá árinu 2008 að teknu tilliti til úrsagna úr þjóðkirkjunni. Á sama tíma hafi greiðslur til stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað vegna verðlagsbóta um 5%.  Með sama hætti ættu sóknargjöld fyrir árið 2013 að vera kr. 958 á hvern gjaldanda en eru nú kr. 728. Er hér því um að ræða brot á jafnræði sem er mikið óréttlæti í garð trúfélaga.

Leikmannastefnan skorar því á stjórnvöld að hlutast til um að sóknargjöldin verði leiðrétt til samræmis við þróun fjárveitinga til stofnana innanríkisráðuneytisins þannig að sóknargjöldin verði kr. 958 á mánuði fyrir hvern gjaldanda á árinu 2013 í stað kr. 728  og renni óskert til sókna þjóðkirkjunnar eins og vera ber og gerður verði samningur við Þjóðkirkjuna og önnur trúfélög um ákvörðun sóknargjalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert