Vilja flytja yfirbyggingu Þorláksbúðar

Hér má sjá yfirbyggingu Þorláksbúðar við hlið Skálholtskirkju.
Hér má sjá yfirbyggingu Þorláksbúðar við hlið Skálholtskirkju.

Leikmannastefna þjóðkirkjunnar sem haldin var í Grensáskirkju í dag, fagnar þeirri ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra frá 27. desember 2012 að friða Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og nánasta umhverfi kirkjunnar. Friðunin nær til ytra og innra byrðis kirkjunnar og ytra byrðis skólans. Ráðherra hefur þannig fallist á sjónarmið húsafriðunarnefndar, sem óskaði eftir friðuninni.

Leikmannastefna fagnar því að staðarmynd þessa helgistaðar íslensku kirkjunnar hefur nú verið friðuð á hálfrar aldar afmælisári hennar.

Leikmannastefna vekur athygli á því að friðunin nær ekki til nýlegrar yfirbyggingar yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar sem eru nánast við kirkjuvegginn. Sú nýbygging er ekki friðuð, heldur aðeins fornleifarnar sem hún hefur verið reist yfir í hinum forna kirkjugarði.

Leikmannastefna hvetur til þess að yfirbyggingin yfir fornleifarnar við kirkjuvegginn verði flutt á annan stað á svæðinu, fjarri hinum friðuðu byggingum og staðarmyndinni í Skálholti. Hvatt er til þess að það verk verði unnið og því lokið fyrir 50 ára vígsluafmæli Skálholtskirkju hinn 21. júlí á komandi sumri. Skálholt hefur verið helgur staður kristinna manna á Íslandi í aldaraðir og ber öllum að umgangast staðinn með virðingu og væntumþykju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert