„Íslandsmet í prinsippleysi“

Össur Skarphéðinsson á Alþingi.
Össur Skarphéðinsson á Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Niðurlæging Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er algjör þegar þeir lúta Þór Saari sem nýjum leiðtoga, því þeir þora ekki að leggja fram vantraust í eigin nafni. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson í umræðum á Alþingi fyrir stundu og fór mikinn. Hann spurði hvort Bjarni Benediktsson hafi gleymt framgöngu Þórs í Landsdómsmálinu.

Umræður standa enn yfir um tillögu Þórs Saari um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. 17 eru enn á mælendaskrá en kosið verður um tillöguna að umræðum loknum.

Verja útgerðina með kjafti og klóm

„Við vitum alveg hvað það er sem er að gerast hér í þessum sölum. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem berst með kjafti og klóm til þess að verja hagsmuni stórútgerðarinnar, til að koma í veg fyrir að í stjórnarskrá verði sett atkvæði um þjóðareign á auðlindum,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Sjálfur sagðist hann telja auðlindaákvæðið það mikilvægasta í nýju stjórnarskránni.

Össur sagði Þór Saari hafa fallið ofan í díki en það ömurlegasta af öllu væri þó engu að síður virkur stuðningur formanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við tillögu hans. Sagði Össur málareksturinn þann furðulegasta sem hann hafi orðið vitni að í þingsal.

„Það sem er sérkennilegt er að þeir breið yfir nafn og númer, þeir þora ekki að koma hreint til dyranna og leggja ekki fram vantraust í eigin nafni heldur kjósa að fela sig á bak við hið breiða bak Þórs Saari.“

„Hæðileg köpuryrði“ Þórs um Geir Haarde

Össur gat ekki gert upp við sig hvort hann ætti að kalla það broslegt eða grátlegt að þeir flokkar sem telji sig vera í þann mund að vinna landið í komandi kosningum byrji þá forystu sína undir handleiðslu Þórs Saari.

„Dapurlegast er hlutskipti Sjálfstæðisflokksins. Eru menn búnir að gleyma Landsdómsmálinu? Ég er ekki búinn að gleyma því. Það var mér þungbært og erfitt og er það enn,“ sagði Össur.

Hann rifjaði upp að Bjarni Benediktsson hafi á sínum tíma viknað í ræðustól þegar hann ræddi aðförina að Geir Haarde, réttilega. „Og hver var það sem valdi þeim manni hæðilegustu köpuryrðin sem íslensk tunga á að geyma? Það var Þór Saari,“ sagði Össur.

Því væru það ill örlög Sjálfstæðisflokksins að gerast nú málaliði Þórs Saari. „Þetta finnst mér ótrúlegt prinsippleysi að horfa upp á. Að þora ekki að há þessa vantrauststillögu á eigin forsendum heldur fela sig á bak við Þór Saari.“

Fela sig á bak við Þór Saari

Össur sagði þetta hentistefnu enda sé vantrauststillagan byggð á því að stjórnarliðar gangi ekki nógu hart fram við að keyra í gegn frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem Sjálfstæðisflokkur sé harðastur á móti.

„Það er það skrýtnasta við þessa tragikómedíu,“ sagði Össur. „Þeir eru að kjósa gegn ríkisstjórninni fyrir að brjóta á bak aftur mál sem þeir eru sjálfir harðastir á móti. Ef þetta er ekki Íslandsmet í prinsippleysi þá er það að minnsta kosti Reykjavíkurmet.“

Sagði hann hlálegt að enginn á Alþingi hafi lýst skýrar andúð sinni á verkum Sjálfstæðisflokksins í 18 ára stjórnartíð hans en „hinn nýi leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Þór Saari.“

„Þessum manni, sem er búinn að fleiðra þá upp um herðablöð, niðurlægja þá og skamma, honum lúta þeir í dag. Þeir eru svo deigir að hafa ekki einu sinni kjark til að koma fram undir eigin nafni til að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.“

Í ræðum sínum á Alþingi í morgun sóru þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð  báðir af sér að fylgja Þór Saari að málum, þótt þeir styðji vantrauststillögu hans.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, í ræðustól í dag.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, í ræðustól í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Ómar Óskarsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert