Meira fjármagn þarf til hælisleitenda

Ögmundur Jónasson fór yfir stöðu innflytjendamála á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Ögmundur Jónasson fór yfir stöðu innflytjendamála á ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ljóst er meira fjármagn þarf til að greiða úr hælisleitendamálum á Íslandi og hugsanlega verður fjölgað í mannaflanum sem sinnir málaflokknum. Þetta segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, sem fjallaði um stöðu innflytjendamála á ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Það sem af er þessu ári hafa 58 hælisleitendur komið til landsins en allt árið í fyrra leituðu 115 hér hælis. Málsmeðferðartíminn er mjög langur og nú er svo komið að fjöldinn er orðinn Reykjanesbæ ofviða, en þar dvelur fólkið á meðan mál þeirra er til meðferðar í kerfinu. Alls eru nú 186 hælisleitendur á landinu, þar af 156 í umsjá Reykjanesbæjar. Samþykkt var á bæjarstjórnarfundi 1. mars að frá og með 1. apríl yrði ekki tekið við fleiri hælisleitendum í bænum.

Vilja hælisleitendur áfram í Reykjanesbæ

Ögmundur Jónasson segist hafa rætt við bæjarstjóra Reykjanesbæjar og innanríkisráðuneytið muni á næstunni óska formlega eftir viðræðum við bæjarfélagið til að finna lausn á málinu. Þá verði einnig rætt við Rauða krossinn um samstarf og rætt við Útlendingastofnun um að reyna að hraða afgreiðslu þessara mála.

Hvaða möguleikar eru í stöðunni í Reykjanesbæ?

„Það er það sem við viljum ræða við bæjarstjórnina. En við höfum á liðnum mánuðum átt í viðræðum við Reykjavíkurborg og erum ekki búin að blása það út af borðinu, þó að ég telji að ýmislegt mæli með því að hafa þetta undir einum hatti.

Reykjanesbær hefur óneitanlega staðið sig prýðilega varðandi félagsþjónustu við fólkið, en ég hef hinsvegar fullan skilning á því að álagið á lítið sveitarfélag getur orðið því um megn og það þarf náttúrulega að vera fjármagn til þess að hægt sé að inna þessa þjónustu af hendi á viðunandi hátt.“

Tilfellið er að umfangið er búið að sprengja þetta utan af sér í Reykjanesbæ, ekki satt?

„Jú, bæði hvað varðar fjölda og svo er það peningahliðin líka.“

Eruð þið með eitthvað sérstakt í huga til þess að flýta málsmeðferðartímanum?

„Við viljum aukna samhæfingu og það er ljóst að það þarf að koma eitthvað meira fjármagn til sögunnar, en þetta erum við allt að kortleggja á mjög markvissan hátt.“

Meira fjármagn til Útlendingastofnunar þá?

„Það er á forsendum innanríkisráðuneytisins að ákveða hvernig því verður varið. Við erum að horfa til margra átta í þessum efnum, við erum að horfa til samkomulags við Reykjanesbæ og Rauða krossins, til verkferla og hugsanlega aukins mannafla til að taka á þessum málum.“

Áttu þá við fjölgun lögfræðinga til að sinna þessum málum?

„Við erum að fara yfir það.“

Vítahringur sem verður að rjúfa

Kostnaðurinn við umönnun hælisleitenda nam 220 milljónum í fyrra. Haldi straumurinn áfram að vaxa verður kostnaðurinn væntanlega hærri á þessu ári. Hjá Útlendingastofnun er gert ráð fyrir 45 milljóna kostnaði vegna þessa málaflokks en stofnunin hefur oftsinnis óskað eftir auknum fjárframlögum svo stytta megi málsmeðferðartímann. 

Hælisleitendur á þessu ári eru þegar orðnir talsvert margir, hafið þið áætlað hver kostnaðurinn verður á árinu miðað við fyrri ár?

„Því miður þá er málið þannig að fólk kemur án þess að gera boð á undan sér, heldur dúkkar bara upp og við þurfum að taka á vandanum eins og hann er. En ég vil taka það fram að útlendingastofnun hefur unnið gríðarlega markvisst starf og mjög vel á þessum undanförnu vikum við erfiðar aðstæður. Við erum að kanna með hvaða hætti við getum enn létt undir þessu starfi.“

Setjið þið ykkur einhver mörk um það hvenær þeirri vinnu á að ljúka og aðgerðir liggja fyrir?

„Við ætlum okkur nokkrar vikur til þess verkefnis. En stóra málið er náttúrulega að bregðast við þeim bráðavanda sem er uppi núna og birtist okkur í auknum fjölda sem kemur til landsins.“

Þannig að leiðarljósið er að flýta málsmeðferðinni?

„Leiðarljósið er einfaldlega að geta hraðað afgreiðslu mála og tekið sómasamlega á móti því fólki sem við þurfum að taka á móti.

Þetta er vítahringur sem verður að rjúfa, vegna þess að ef við ekki getum hraðað afgreiðslum þá fjölgar í hópnum og fjölgunin kallar síðan hugsanlega á enn meira streymi til landsins. Þannig að við verðum að rjúfa þennan vítahring og það er þetta sem við erum að reyna að gera.“

156 hælisleitendur dvelja nú í Reykjanesbæ en bæjarstjórnin vill fækka …
156 hælisleitendur dvelja nú í Reykjanesbæ en bæjarstjórnin vill fækka þeim niður í 50 fyrir september. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert