Voru til í að taka á sig Icesave-skuldirnar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi í kvöld.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi vinstri- og hægriflokkanna fyrir að vilja ekki taka á vanda heimilanna. Hann sagði að talsmenn þessara flokka hefðu ekki verið í vandræðum með að þjóðin tæki á sig milljarðaskuldbindingar af Icesave.

Sigmundur Davíð gerði hugmyndafræðileg átök hægri- og vinstramanna að umfjöllunarefni í upphafi ræðu sinnar. „Í slíkum herópum vinstri og hægrimanna gleymist að fólkið í landinu glímir við raunveruleg vandamál sem eru þess eðlis að engin ein hugmyndafræði hefur lausnir á þeim öllum.“

Sigmundur Davíð sagði að til að leysa þann vanda sem blasti við yrðu að laga úrræðin að raunveruleikanum og hafa óbilandi trú á framtíðinni. Ef stjórnmálamenn ynnu saman að slíkum lausnum væri Íslandi allir vegir færir.

„Eitt mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar er að koma á móts við skuldsett heimili og skapa jákvæða hvata fyrir fólk til að vinna sig út úr vandanum. Þar má  ekki bara horfa á hvað kostar að taka á skuldavandanum því það verður enn dýrara fyrir samfélagið að gera ekkert og skilja íslensk heimili föst í heljargreipum skulda og atvinnuleysis.

Eftir að rúm fjögur ár hefur mikill fjöldi íslenskra heimila með verðtryggð lán enn enga lausn fengið á vanda sínum á meðan aðrir geta þakkað hæstarétti fyrir leiðréttingu gengistryggðra lána. Næstum heil kynslóð er orðin eignalaus; á minna en ekki neitt. Eigið fé ungra barnafjölskylda er horfið í hít húsnæðislánanna. Séreignasparnaður millistéttarinnar er horfinn í lánahítina eða brenndur upp til að fjármagna lífsbaráttuna frá degi til dags. Þennan vítahring verður að rjúfa.

 Ef ekkert verður að gert mun samfélagið staðna og fjölskyldurnar sundrast. Í slíku ástandi er það skylda okkar að finna lausnir sem virka.

Það hefur verið undarlegt að fylgjast með sumum talsmönnum hægri- og vinstriflokkanna hafna því fyrirfram að komið verði til móts við skuldsett heimili og kallað það töfralausnir, þegar er talað er um leiðir til að koma í veg fyrir að heimilin beri ein byrðarnar í yfirstandandi efnahagsþrengingum. Margir  þessara sömu stjórnmálamanna og álitsgjafa áttu ekki í vandræðum með að lofa hundurðum milljarða til að greiða vexti af ólögvörðum Icesave-kröfum. Margir hafa ekki átt í vandræðum með að réttlæta að tugum milljarða var ausið í gjaldþrota fjármálastofnanir,“ sagði Sigmundur Davíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert