Dýpkun gengur glimrandi vel

Mikil aska er við Landeyjahöfn eftir rokið sem gerði um …
Mikil aska er við Landeyjahöfn eftir rokið sem gerði um miðja síðustu viku. Ljósmynd/Jóna Sig.

„Þetta hefur gegnið glimrandi vel,“ segir Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri hjá Björgun um dýpkun Landeyjahafnar. Þrjú skip hafa verið við dælingu mest alla vikuna og eru þau búin að dæla um 63 þúsund rúmmetrum af sandi og ösku.

Sanddæluskipin Sóley, Dísa og Perla eru við dælingu í Landeyjahöfn. Ákveðið var að notast við þrjú skip í einu og reyna þannig að gera höfnina klára fyrir Herjólf á eins skömmum tíma og hægt væri. Jóhann segir að forsenda fyrir því að þetta sé hægt sé að veðrið sé gott og það hafi sem betur fer verið ágætt alla vikuna og útlitið sé gott fram í miðja næstu viku.

Jóhann segir að reiknað hafi verið með að það þyrfti að dæla í 7-10 daga áður en höfnin yrði fær. Hann segir menn séu heldur á undan áætlun. Það sé hins vegar Siglingastofnunar að taka meta hvenær höfnin sé orðin fær fyrir siglingar Herjólfs. Eftir eigi að mæla dýpið betur.

Jóhann segir að þegar dæling hófst hafi dýpið í hafnarmynninu verið 3 metrar, en það þurfi að vera 7 metrar. Það hafi því þurft að dæla miklum sandi í burtu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert