„Hreinlega hættulegt lýðræðinu“

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar. mbl.is

„Lífleg og góð samskipti milli pólitískt kjörinna fulltrúa og þeirra sem veita þeim umboð eru hornsteinn lýðræðisþjóðfélags. Í stórum samfélögum geta þessi samskipti orðið snúin og erfitt að eiga nauðsynlega orðræðu við hvern og einn kjósanda,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, í erindi sem hún hélt í dag á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Grand hótel í dag. Í erindinu ræddi hún stöðuna í sveitarstjórnarmálum almennt í dag.

„Heimsóknir á bæjarskrifstofuna eru nú orðið sjaldnast til marks um tengsl bæjarbúa og sveitarfélagsins, heldur eru samskiptin svo miklu miklu víðar og á miklu fleiri sviðum. Sameiginleg markaðssetning ríkis og sveitarfélaga í Danmörku á þessu sviði eru til eftirbreytni,“ sagði Aldís og vitnaði til samstarfs um stefnumótun í skólamálum í Danmörku þar sem ríki og sveitarfélög hafa tekið höndum saman.

Tæknilausnir allar til að veita sem besta og mesta þjónustu

Aldís gerði rafræn samskipti sveitarfélaga við íbúa að umtalsefni. „Óformleg samskipti sem eiga sér stað víða í sveitarfélögum eru afar mikilvæg en þrátt fyrir það eru flestir sveitarstjórnarmenn meðvitaðir um að nýjar aðferðir eru nauðsynlegar og því hafa fjölbreyttar tæknilausnir víðast hvar verið teknar í notkun. Allt með sama markmiði og það er að veita sem mesta og besta þjónustu,“ sagði Aldís í erindi sínu.

Fáir hafa jafn yfirgripsmikið tengslanet og sveitarstjórnarmenn

Hún sagði fáa hafa jafn yfirgripsmikið tengslanet og að fáir leggi jafn mikið á sig til að setja sig inn í málaflokka eins og sveitarstjórnarmenn. „Því stingur það óneitanlega þegar fram á sjónarsviðið koma aðilar sem halda því fram að sveitarstjórnarmenn hafi ekki vit á hinu eða þessu atriðinu af því við erum ekki „fagmenn“ í viðkomandi geira.

Það er alveg rétt sveitarstjórnarmenn eru fæstir fagmenn á öllum sviðum. Enda eiga þeir ekki að vera það. Ég hef stundum sagt að helstu eiginleikar sveitarstjórnarmannsins þurfi að vera; góður skammtur af eðlisgreind og fjölbreytt reynsla í ríkulegum mæli, þeir séu vel læsir í víðustu skilgreiningu þess hugtaks og að þeim þyki vænt um annað fólk,“ sagði Aldís og bætti við: „Sá sem er gæddur þessum hæfileikum getur tekist á við þær áskoranir sem felast í því að vera sveitarstjórnarmaður.“

Sveitarstjórnarmenn eigi að hafa skoðun

„Að sjálfsögðu eiga sveitarstjórnarmenn að hafa skoðun á þeim rekstrarþáttum sem lúta að starfsemi sveitarfélaganna og vera óhræddir við að tjá sig um þá. Þar á meðal um fráveitu, sorp, gatnagerð og ekki síst menntun og skólamál. Það er hreinlega hættulegt lýðræðinu ef halda á því fram að stjórnmálamenn eigi ekki að hafa skoðun á þeirri starfsemi sem við veljum að leysa í sameiningu, borgararnir.

Það er hættulegt lýðræðinu ef við ætlum að láta embættismenn alfarið sjá um stefnumörkun, aðgerðir og úrlausnir á þeim forsendum að við hin „höfum ekki vit“ á málaflokknum,“ sagði Aldís.

Segir varla mega tala um breytingar í starfsumhverfi kennara

„Mér hefur fundist það mjög miður að umræðan um jafn veigamikinn hlut eins og skilgreiningu vinnutíma stærsta vinnustaðar hvers sveitarfélags skuli vera í þeim farvegi að hana sé varla þorandi að ræða.

Það má varla minnast á það hvort að kennsluafsláttur eldri kennara sé með þeim hætti sem best er fyrir skólastarfið eða hvort að betra væri að reynslumeiri kennara verðu meiri tíma með nemendum og yngri kennarar sem eru að stíga sín fyrstu skref fengju meira svigrúm heldur en nú er,“ sagði Aldís og að sveitarstjórnarmenn mættu varla orðað það hvort eðlilegra væri að stjórnendur skóla gætu skipulagt skólastarfið út frá aðstæðum á hverjum stað frekar en niðurnjörvuðum kjarasamningi. Svo sagði hún: „Af því að við, sveitarstjórnarmenn, höfum ekki faglegan skilning á eðli skólastarfs að mati einhverra!“

Frá landsþinginu í dag á Grand hótel.
Frá landsþinginu í dag á Grand hótel. mbl.is/Styrmir Kári
Frá landsþinginu í dag á Grand hótel.
Frá landsþinginu í dag á Grand hótel. mbl.is/Styrmir Kári
Frá landsþinginu í dag á Grand hótel.
Frá landsþinginu í dag á Grand hótel. mbl.is/Styrmir Kári
Frá landsþinginu í dag á Grand hótel.
Frá landsþinginu í dag á Grand hótel. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert