Kjaramálasviðið á að vera hjarta VR

Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR.

„Fyrst og síðast þá er ég afar þakklát fyrir þennan mikla stuðning. Við fundum fyrir þessum góða meðbyr allan tímann; hann fólst fyrst og síðast í jákvæðni og að vera á málefnalegum nótum,“ segir Ólafía Björk Rafnsdóttir, nýkjörinn formaður VR, í samtali við mbl.is.

„Ég var með gríðarlega mikið og gott stuðningsfólk með mér - svo ekki sé talað um fjölskylduna. Svo fann ég fyrir svo mikilli jákvæðni og miklum áhuga félagsmanna á öllum vinnustaðafundunum sem ég fór á,“ bætir hún við. Það hafi verið gaman að hitta VR-félaga á þessum vettvangi.

Kosningaþátttaka í formannskjörinu var aðeins 21,58% og á undanförnum árum hefur hún ekki verið mikil. Ólafía segir að þar verði að gera betur. „En það var gaman að heyra hvað fólk hefur mikinn áhuga samt sem áður á félaginu. Nú þarf bara að finna réttan jarðveg til þess að fólk geti látið allar þessar hugmyndir sínar koma fram,“ segir Ólafía.

Aðspurð segir hún að það liggi ekki fyrir á þessari stundu hvenær hún muni taka formlega við sem formaður VR af Stefáni Einari Stefánssyni.

Leggur áherslu á kjaramálin

Hún segir að næstu skref séu að hitta nýja stjórn, starfsmenn og fara nánar yfir verkefni félagsins. „Það verður áhugavert og gaman að hitta þetta fólk, taka höndum saman og vinna góð verk,“ segir hún.

Ólafía segir aðspurð að breytingar fylgi ávallt nýjum formanni. „Ég mun leggja fyrst og síðast áherslu á kjaramálin og í mínum huga á kjaramálasviðið að vera hjartað í VR. Það þarf að styrkja það betur - það eru jú kjarasamningar framundan - og koma með nýjar hugmyndir við það borð.“

Ólafía hlaut 76,1% atkvæða í kosningunum. Hún segir aðspurð að það hafi komið sér á óvart hversu afgerandi sigurinn var. „Ég vissi nú reyndar allan tímann og fann fyrir þessu jákvæðu straumum, en áttaði mig ekki á því að þetta yrði svona afgerandi,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert