„Stríðsyfirlýsing við landsbyggðina“

Frá Reykjavíkurflugvöllur.
Frá Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Ómar

„Þessi aðgerð er ekkert annað en stríðsyfirlýsing við landsbyggðina,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, um samkomulag ríkisstjórnarinnar og borgaryfirvalda um að reisa byggð í Vatnsmýrinni. Þetta sé fyrsta skrefið í að leggja niðiur Reykjavíkurflugvöll.

„Það að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni er einfaldlega eitt af stærstu hagsmunamálum fólks sem býr úti á landi og þarf nauðsynlega á góðum flugsamgöngum að halda við höfuðborgina,“ segir Höskuldur í samtali við mbl.is.

„Höfuðborgin er mikilvæg landsbyggðinni og landsbyggðin er mikilvæg höfuðborginni. En flugvöllurinn er eina samgöngutækið sem gerir landsbyggðarmönnum kleift að sækja þá þjónustu sem er til staðar í höfuðborginni,“ segir Höskuldur.

Hann segir ennfremur, að ákvörðun borgar og ríkis sé eitt fyrsta skrefið í því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður, eins og fram komi í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar að eigi að gerast fyrir árið 2024.

Þarna sé um að ræða samkomulag sem borgaryfirvöld og ríkið hafi ákveðið sín á milli. „Við höfðum enga aðkomu að þessu,“ segir Höskuldur.

„Stjórnsýslan, ráðuneyti og stofnanir eru öll staðsett í Reykjavík. Það stendur til að byggja hátæknisjúkrahús;  staðsetningin miðast við það að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri,“ segir Höskuldur og bætir við að nýr Landspítali verði það stór að eina öryggi landsmanna sé að flugvöllurinn verði þar áfram. Hann tekur fram að það hafi ávallt verið á stefnuskrá Framsóknarflokksins.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert