„Eins og að skrifa skrýtið tungumál“

Forritunarkeppni framhaldsskólanna fer nú fram í Háskólanum í Reykjavík. Etja þar kappi nemendur með fjölbreyttan bakgrunn, en sérfræðiþekking á sviði forritunar er ekki skilyrði þátttöku. Þannig er öllum sem áhuga hafa á hönnun, forritun og tölvum frjálst að taka þátt, þrátt fyrir að hafa ekki lært forritun í framhaldsskóla. 

Keppnin hefur verið haldin í 12 ár, og hefur HR hýst hana frá byrjun. Nýherji er aðalstyrktaraðili keppninnar en ásókn í hana hefur aukist jafnt og þétt að sögn skipuleggjenda. „47 lið taka þátt í ár en það er metþátttaka. Hvert lið er svo skipað 1-3 einstaklingum svo þetta er stórt mót,“ segir Guðbjörg Guðmundsdóttir hjá markaðs-og samskiptasviði HR. 

„Keppnin í ár hefur gengið mjög vel, skráning og kynning á kerfum fór fram í gær og þetta hefur gengið eins og í sögu,“ segir Guðbjörg. 

Hún segir þátttakendur í mörgum tilvikum vera sjáflærðir í forritun. „Fagið er ekki kennt víða á framhaldsskólastigi. Krakkarnir kenna sér þetta sjálfir og hafa mikinn áhuga. Það bendir kannski til þess að eftirspurn sé eftir fleiri tækifærum til að læra forritun í framhaldsskólunum, til dæmis sem valgrein“ segir Guðbjörg. 

7 stelpur taka þátt

Aðspurð hvernig kynjahlutföllin í keppninni séu segir hún þau nokkuð ójöfn. „Í ár eru 7 stelpur skráðar til leiks. Þeim fer hægt fjölgandi og við erum í sífellu að reyna að fá fleiri stelpur til að velta fyrir sér þessum möguleika leggur HR mikla áherslu á að hvetja þær til þátttöku,“ segir Guðbjörg. 

Þrautirnar sem keppendur takast á við eru fjölbreyttar. „Á fyrri árum hafa þátttakendur til að mynda verið látnir hanna spjallforrit, forrit sem les inn setningar, forrit sem reiknar útborguð laun og forrit sem reiknar verð vöru fyrir og eftir verðlækkun,“ segir Guðbjörg.  

Að hennar sögn eru krakkarnir gríðarlega áhugasamir um forritun og nýta hana sem sköpunarvettvang. „Einn þátttakandi lýsti því sem svo að þetta væri eins og að skrifa mjög srýtið tungumál. Jafnframt fást krakkarnir við að finna lausnir við vandamálum, skapa ný kerfi og þefa uppi nýja möguleika. Þau hugsa upp leiðir til að gera nýja hluti og virkja þannig sköpunargáfu og ímyndunarafl,“ segir Guðbjörg. Hún segir sennilegt að margir þátttakenda velti fyrir sér námi í tölvunarfræði á háskólastigi þó ekki liggi fyrir upplýsingar um hversu stórt hlutfall þátttakenda fari rakleitt í það fag að stúdentsprófi loknu.

Keppt er í þremur deildum á mótinu: Kirk-deildinni, Spock-deildinni og Scotty-deildinni eftir erfiðleikastigi þrautanna. Veitt verða fjölmörg verðlaun í keppninni, til dæmis fyrir besta lið hverrar deildar úr heildarniðurstöðu, frumlegustu lausnina og besta lógó liðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert