„Langmestar líkur á samstarfi Framsóknar og vinstrimanna“

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Brýnt er að hætta að sóa tíma í mál sem eru með engum hætti í forgangi hjá fólkinu í landinu. Nú er mál að ljúka þingstörfum og hefja samtal við kjósendur,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins um tafir á þinglokum. 

„Við höfum lengi verið þeirrar skoðunar að stjórnarflokkarnir séu óraunsæir í stjórnarskrármálinu. Þeir völdu þá leið að krefjast heildarendurskoðunar á stjórnarskránni og keyrðu undir lokin á vegg. Nú er einfaldlega komið fram yfir þann tímapunkt að skynsamlegt sé að fara að kroppa einstök atriði út til þess að bjarga þessum leiðangri stjórnarflokkanna. Þegar menn átta sig á því mun losna um flækjuna á þingi og við getum lokið þingstörfum með lágmarksreisn fyrir þingið og farið að tala um hluti sem brenna á fólkinu í landinu,“ segir Bjarni. 

Aðspurður hvaða mál honum þyki að eigi að njóta forgangs nefnir hann atvinnu- og skuldamál. „Nýjustu tölur um stöðuna í atvinnulífinu eru sláandi, það ríkir kuldavetur í atvinnulífinu. Heimilin kalla eftir markvissum aðgerðum, ríkissjóður hefur verið rekinn með 300 milljarða halla síðustu 3 ár. Kominn er tími til að menn vakni og átti sig á því að það þarf að grípa til aðgerða í mikilvægum málum og hætta að sóa tíma, segir Bjarni. 

Fylgistap veldur vonbrigðum

Bjarni segist ekki harma sérstaklega afdrif vantrausttillögu Þórs Saari. „Satt best að segja gerði ég ekki ráð fyrir að hún næði fram að ganga. Það má taka undir að stutt er til kosninga. Við létum hins vegar ekki tækifæri til að gagnrýna stjórnarstefnuna okkur úr greipum ganga,“ segir Bjarni. 

„Nú eru hins vegar 6 vikur til kosninga og þótt ótrúlegt megi virðast eru enn uppi hættumerki um að áfram verði vinstristjórn í landinu. Það þýðir meira af því sama,“ segir Bjarni. 

Inntur eftir því hvort sjálfstæðismenn séu uggandi yfir niðurstöðum kannana sem leiða í ljós að Framsókn njóti meira fylgis en Sjálfstæðisflokkurinn segir hann svo ekki vera. „Ég horfi fyrst og fremst á stuðning við minn flokk og minna á hvernig fylgið dreifist á hina. Það veldur okkur þó vonbrigðum að fylgi okkar hafi verið á svo mikilli hreyfingu á jafn skömmum tíma og raun ber vitni,“ segir Bjarni. 

Aðspurður hvernig þeir hyggist snúa þessari þróun við segir skattalækkanir aðalatriði fyrir næstu kosningar. „Við ætlum að tala fyrir lækkun skatta og munum leggja áherslu á kraftmikið atvinnulíf og raunhæfar aðgerðir fyrir heimilin sem steypa ekki fjármálum ríkisins í algjört óefni. Mín sannfæring er sú að þegar við komumst loks til að ræða þessi mál við kjósendur mun staðan snúast aftur okkur í vil,“ segir Bjarni. 

Langmestar líkur á samstarfi Framsóknar og vinstriflokka

Hann segir kosningaloforð framsóknarmanna óraunsæ. „Maður finnur enda að þeir eru nú þegar byrjaðir að draga í land og eiga enn eftir að gera grein fyrir því hver á að borga það sem mér viðrast vera nokkur hundruð milljarða loforð,“ segir Bjarni. 

Bjarni segir aðspurður að fylgisaukning framsóknarmanna auki ekki líkur á því að stjórnarsamstarfi milli Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. „Þeir hafa í langan tíma talað fyrir því að mynda vinstristjórn þannig að mér sýnist að í augnablikinu séu langmestu líkurnar á þannig stjórnarsamstarfi,“ segir hann. 

„Til þess að okkar stefnumál nái fram að ganga þurfum við að sækja í okkur veðrið og endurheimta þann stuðning sem við höfðum fyrir nokkrum vikum síðar,“ segir Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert