Náttúrulegir sterar og hálendisnudd

Allir 14 hópar Start Up Weekend samankomnir á verðlaunaafhendingu í …
Allir 14 hópar Start Up Weekend samankomnir á verðlaunaafhendingu í Háskólanum í Reykjavík í dag mbl.is/Nína Salvarar

Frumkvöðlaviðburðinum Startup Weekend Reykjavík lauk í kvöld í Háskólanum í Reykjavík með verðlaunaafhendingu fyrir bestu hugmyndina.

Verkefnið „Lokunin“ varð hlutskarpast í ár. Um er að ræða fyrirtæki sem mun selja bandvídd á niðurhali af netinu mun ódýrar en boðið er upp á í dag.

Fyrirtækið nýtir tækni sem byggist á að nota bandvídd gagnavera sem almennt er ekki nýtt í þeim tilgangi að hlaða niður efni frá útlöndum. Gagnaver bjóða bandvídd á lágu verði og með því að nýta lausn Lokunarinnar þá er hægt að bjóða heimilum niðurhal á mun lægra verði en almennt gerist á markaðnum í dag.

Dómnefnd valdi verðlaunahugmyndina og hlaut hún 200 þúsund krónur í verðlaun. 

Í 2. sæti var fæðubótardrykkurinn Broddur sem unnin er úr broddmjólk sem er einstaklega næringarrík. Hugmyndasmiðirnir selja mjólkina beint frá bónda til neytanda, en Jón Páll kraftajötunn vísaði eftirminnilega til broddsins sem „náttúrulegra stera“. Drykkinn er hægt að kaupa á www.abroddinn.is 

Í 3. sæti var verkefni að nafni „Healing Nature“, sem engur út á að bjóða ferðamönnum upp á nudd og yogatíma á hálendinu. 

Alls tóku 70 manns þátt í ár með 14 hugmyndir. Er þetta í 2. skiptið sem Startup Weekend fer fram í núverandi mynd.

Meðal hugmynda sem þátttakendur lögðu fram í ár var snjallsímaforritið og vefsíðan Govent, sem safnar upplýsingum um viðburði í Reykjavík og lætur notanda vita af áhugaverðum viðburðum sem eiga sér stað í nágrenni við notandann. Þar að auki var kynntur til leiks Gróandinn, hjálparhella garðyrkjumannsins, sem er forrit sem er tengt við veðurstöðvar og reiknar út hvenær þarf að sá, bera áburð, klippa greinar og varar við skaðvöldum á borð við kálflugur svo hægt sé að eitra í tæka tíð. 

Vinna langt fram á nótt

Því er ljóst að enginn skortur var á efnilegum hugmyndum á viðburðinum, sem að sögn Stefáns Þórs Helgasonar, verkefnastjóra hjá Innovit, gekk vel fyrir sig og kom þátttakendum mjög að gagni. „Viðburðurinn á sér stað yfir eina helgi. Fólk kemur á föstudegi ýmist með hugmynd eða áhuga á þátttöku í hugmyndavinnu.  Hugmyndasmiðirnir kynna svo hugmyndirnar sínar og reyna að fá aðra þátttakendur, hvort sem það eru aðrir hugmyndasmiðir eða þeir sem hafa gagnlega þekkingu, til liðs við sig og mynda teymi utan um hugmyndirnar. Það geta til að mynda verið viðskiptafræðingar, grafískir hönnuðir, forritun eða einhverju slíku,“ segir Stefán Þór.

Á laugardeginum byrja menn svo að þróa hugmyndirnar af fullum krafti. „Þá komu hingað 10 mentorar með ólíkan bakgrunn sem jusu úr skálum visku sinnar yfir þátttakendur og aðstoðuðu þá við að móta hugmyndirnar enn frekar. Sum þessara teyma hafa nýtt hverja stund yfir helgina, byrja 7, 8 á morgnana og vinna langt fram á nótt,“ segir Stefán Þór.

Lærdómur í tapi

Í dag kynntu svo teymin hvernig þeim gekk, hversu langt þeim tókst að þróa hugmyndina og hvaða hugmyndir þau hafa um framhaldið. „Markmiðið er í raun að komast sem lengst með framkvæmd hugmyndarinnar, til að mynda tekst sumum teymum að koma vöru í sölu áður en helgin hefur runnið sitt skeið á enda,“ segir Stefán Þór. 

Að hans sögn hlýst mikill lærdómur af þátttökunni, jafnvel þó ekki takist að koma hugmynd á kopp. „Það er ómetanleg reynsla að prófa að vinna í samvinnu við aðra að hugmynd undir pressu, þarna prófar fólk með lágmarksáhættu að tækla alls kyns aðstæður sem komið geta upp hjá fyrirtækjum þar sem ólíkir einstaklingar koma saman og gera hugmyndir að raunveruleika,“ segir Stefán Þór. 

Tengd frétt: Tengja saman hugmyndir og framkvæmd.

Hópurinn sem bar sigur úr býtum með verkefnið Lokunin. Um …
Hópurinn sem bar sigur úr býtum með verkefnið Lokunin. Um er að ræða fyrirtæki sem mun selja bandvídd á niðurhali af netinu mun ódýrar en boðið er upp á í dag. mbl.is/Nína Salvarar
Verkefnið Broddur hafnaði í 2. sæti, en þau selja næringarríka …
Verkefnið Broddur hafnaði í 2. sæti, en þau selja næringarríka broddmjólk, beint af kúnni til neytenda sem fæðubótarefni. Drkkinn er mbl.is
„Það er ómetanleg reynsla að prófa að vinna í samvinnu …
„Það er ómetanleg reynsla að prófa að vinna í samvinnu við aðra að hugmynd undir pressu,“ segir Stefán Þór Helgason verkefnastjóri hjá Innovit. Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert