Norðurslóðamál í deiglunni

Vel fór á með utanríkisráðherrum Svíþjóðar og Íslands, Carl Bildt …
Vel fór á með utanríkisráðherrum Svíþjóðar og Íslands, Carl Bildt og Össuri Skarphéðinssyni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áskoranir og tækifæri á norðurslóðum eru viðfangsefnin á alþjóðlegri ráðstefnu um norðurslóðir sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stendur fyrir og hófst í dag, í tilefni af opnun nýs rannsóknarseturs um norðurslóðir. Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar kom til landsins í dag og fór vel á með þeim Össuri Skarphéðinssyni.

„Frábært veður í Reykjavík og gott spjall við minn gamla vin, utanríkisráðherra Íslands Össur Skarphéðinsson,“ tísti Carl Bildt á Twitter síðu sinni síðdegis í dag, en hann fundaði með Össuri í utanríkisráðuneytinu áður en ráðstefnan var sett og dubbuðu þeir félagar sig upp í lopapeysur af því tilefni.

Bildt bætti því síðar við á Twitter að hann hafi í dag lært meira um fiskveiðistjórnunarmál í Norður-Atlantshafi. „Ísland á farsæla sögu af nýtingu fiskistofna,“ tísti Bildt og vísaði í enska vefsíðu Hafrannsóknarstofnunar.

Nýja rannsóknarsetrinu um norðurslóðir (Centre for Arctic Policy Studies - CAPS) er ætlað að vera vettvangur fyrir þverfaglegt samstarf á sviði norðurslóðarannsókna með áherslu á hlutverk og stefnu ríkja, stofnana og óopinberra aðila í stjórnarháttum, menningu og samfélagi á norðurslóðum.

Ráðstefnan sem þeir Össur og Bildt settu í sameiningu í kvöld er haldin í tengslum við opnun rannsóknarsetursins. Þar taka þátt fjölmargir fræðimenn og sérfræðingar, þar á meðal frá Kína, Rússlandi, Kanada, Noregi og Bandaríkjunum.

Á fundi þeirra Össurar og Bildt í utanríkisráðuneytinu í dag kom fram að þeir séu sammála um að það sé styrkur fyrir Norðurskautsráðið að fleiri ríki vilji verða þar áheyrnaraðilar.

Meðal þess sem fjallað verður um ráðstefnunni eru efnahagsmál á norðurslóðum, umhverfismál, auðlindir og fiskveiðar. Ráðstefnan er öllum opin og má finna dagskrá hennar á heimasíðu Alþjóðamálastofnunar.

Utanríkisráðherrarnir klæddust lopapeysum í dag enda ekta íslenskt gluggaveður.
Utanríkisráðherrarnir klæddust lopapeysum í dag enda ekta íslenskt gluggaveður. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
Össur notaði spjaldtölvu til að sýna viðstöddum Twitter myndina af …
Össur notaði spjaldtölvu til að sýna viðstöddum Twitter myndina af þeim kollegum í lopapeysum. mbl.is/Ómar Óskarsson
Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar opnaði ráðstefnuna formlega á Hótel Sögu …
Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar opnaði ráðstefnuna formlega á Hótel Sögu í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson
Vel fór á með utanríkisráðherrum Svíþjóðar og Íslands, Carl Bildt …
Vel fór á með utanríkisráðherrum Svíþjóðar og Íslands, Carl Bildt og Össuri Skarphéðinssyni. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert