Gott að geta opnað fyrir páska

„Það  er ánægjulegt að geta opnað höfnina fyrir páska,“ segir Hallgrímur Hauksson, skipstjóri á Herjólfi, en ferjan hóf siglingar í Landeyjahöfn í morgun. Farnar verða fjórar ferðir í dag, en meðan siglt var til Þorlákshafnar hefur verið farið tvær ferðir.

Hallgrímur sagði að ferðin í morgun hefði gengið vel. Búið væri að dýpka höfnin mjög vel og sandur hamlaði því ekki siglingum.

Ekki er hægt að fullyrða að siglt verði í Landeyjahöfn það sem eftir lifir vetrar, en veður og ölduhæð geta komið í veg fyrir ferðir ferjunnar í höfnina. Spáð er hvassara veðri um næstu helgi.

Herjólfur hefur ekkert siglt í Landeyjahöfn síðan í nóvember þegar skipið rak skrúfuna í vestari hafnargarðinn við Landeyjahöfn í nóvember. Bakborðsstýri og -skrúfa skemmdust og tók nokkra daga að gera við skipið í slipp.

Herjólfur hefur því siglt til Þorlákshafnar í tæplega fjóra mánuði. Siglingar í Landeyjahöfn þýða að þjónusta við Eyjamenn batnar mikið því að ferðum milli lands og Eyja fjölgar úr tveimur í fjórar og ferðatíminn styttist veruleg.

Mjög vel gekk að opna dæla sandi úr Landeyjahöfn í mars, en búið er að dæla um 100 þúsund rúmmetra af sandi úr höfninni og hafnarminninu. Þetta er gríðarlegt magn sem sést best af því að þegar höfnin var gerð var áætlað að dæla þyrfti um 180 þúsund rúmmetrum af sandi. Þegar verkið var boðið út á sínum tíma fékk verktakinn þrjá mánuði til að ljúka verkinu. Nú er hins vegar búið að dæla 100 þúsund rúmmetrum á um 10 dögum, en þrjú skip Björgunar hafa verið notuð til verksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert