Mikið mæðir á Kaupþingstoppum

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. mbl.is/Kristinn

Ákæra sérstaks saksóknara á hendur níu yfirmönnum og fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings banka verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næsta mánuði. Á svipuðum tíma fer fram aðalmeðferð á hendur helstu forsvarsmönnum bankans í Al-Thani-málinu svonefnda.

Eins og komið hefur fram hefur sérstakur saksóknari gefið út ákæru vegna eigin viðskipta Kaupþings. Meðal annars er um sama mál að ræða og Fjármálaeftirlitið sendi til embættis sérstaks saksóknara í október 2009.

Í frétt Morgunblaðsins frá þeim tíma sagði meðal annars: „Grunur leikur á að bankinn hafi kerfisbundið reynt að hafa áhrif á eigið hlutabréfaverð og skapað stöðuga eftirspurn eftir bréfunum og þannig sent röng og villandi skilaboð til markaðarins um raunvirði hlutabréfanna.“ Um hafi verið að ræða allsherjarmarkaðsmisnotkun sem geti varðað allt að sex ára fangelsi.

Ákæra í málinu hefur ekki verið gerð opinber en enn á eftir að birta ákæruna öllum í málinu. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir embættið ekkert geta sagt, þrátt fyrir að allskyns upplýsingabrot úr ákærunni séu farin að birtast í fjölmiðlum. Ágætlega hafi gengið að birta mönnum ákæruna og reiknað sé með að þær verði gerðar opinberar á fimmtudag eða föstudag.

Al-Thani-málið einnig í apríl

Stefnt er að því að þingfesta ákæruna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í næsta mánuði. Þótt nákvæm dagsetning liggi ekki fyrir er ljóst að þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, þurfa að koma oftar en einu sinni og svara til saka fyrir dómara í apríl.

11. apríl hefst aðalmeðferð í Al-Thani-málinu svonefnda þar sem þeir þrír ásamt Ólafi Ólafssyni eru ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum þegar Kaupþing var látið veita eignalausu félagi, í eigu Al Thani sjeiks í Katar, á Tortola 50 milljónir Bandaríkjadala lán án þess að lánið væri tryggt og án samþykkis lánanefndar bankans. 

Aðalmeðferðin heldur svo áfram þann 19. apríl. 

Einnig ákært vegna Landsbanka

Jafnframt hefur verið upplýst um að sérstakur saksóknari hafi ákært sex fyrrverandi yfirmenn og starfsmenn Landsbankans. Það sé meðal annars vegna svonefnds Ímons-máls. Þá hafi starfsmenn Landsbankans hafi haft frumkvæði að því í lok september 2008 að bjóða Ímon, félagi Magnúsar Ármanns, að kaupa rúmlega 4%  hlut í Landsbankanum á sögulega lágu markaðsgengi, fyrir rúmlega 5 milljarða króna.

Í grein sem Magnús Ármann skrifaði um Ímon-málið, eftir að ljóst var að rannsókn á þætti hans var hætt, segir: „Ég tapaði því þessu stóra „veðmáli” og ákvörðun mín reyndist heimskuleg – ekki síst miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir síðar.  En ég var ekki þátttakandi í neinu plotti um sýndarviðskipti eða markaðsmisnotkun. Mér voru boðin hlutabréf á góðum kjörum og ég tók áhættuna. Ég vissi aldrei hvaðan bréfin komu og ég gerði mér ekki grein fyrir að staða bankans var orðin grafalvarleg á þessum tímapunkti, enda var það ekki í samræmi við þær upplýsingar sem ég hafði fengið.“

Meðal þeirra sem eru ákærðir úr Landsbankanum eru Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri, Elín Sigfúsdóttir, sem var forstöðumaður fyrirtækjasviðs, og Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta bankans.

Nöfn Sigurjóns og Elínar eru einnig á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur vegna annars máls í apríl, nefnilega skaðabótamáls slitastjórnar Landsbankans á hendur þeim og Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrverandi bankastjóra. 

Í því máli, sem raunar eru tvö: Grettismálið og Straumsmálið, eru þeir Sigurjón og Halldór krafðir um tæpa 40 milljarða í skaðabætur. Látið er reyna á stjórnendaábyrgð sem bankinn keypti og var tryggingafélögum einnig stefnt fyrir dóm. Í öðru málinu er Elínu einnig stefnt.

Alls átta mál

Þar sem ákærur sérstaks saksóknara hafa ekki verið gerðar opinberar og aðeins hluti upplýsinga úr þeim komið til fjölmiðla má fullyrða að enn eigi mikið eftir að skrifa um þær. Þetta eru enda allt í allt átta mál; fimm í ákærunni á hendur fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings og þrjú á hendur fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans.

Magnús Guðmundsson, t.v.
Magnús Guðmundsson, t.v. Eggert Jóhannesson
Sigurður Einarsson
Sigurður Einarsson mbl.is/Kristinn
Sigurjón Þ. Árnason
Sigurjón Þ. Árnason Rax / Ragnar Axelsson
Elín Sigfúsdóttir, t.v.
Elín Sigfúsdóttir, t.v. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert