Tólf tíma lögreglutíst

Þórir Ingvarsson, rannsóknarlöreglumaður hjá LRH, segir að ef vel tekst …
Þórir Ingvarsson, rannsóknarlöreglumaður hjá LRH, segir að ef vel tekst til, þá sé afar líklegt að lögreglan muni endurtaka leikinn á Twitter. mbl.is/Júlíus

Störf lögreglumanna eru fjölbreytt og er þeim ekkert mannlegt óviðkomandi. Næstkomandi föstudagskvöld og aðfararnótt laugardags verður hægt að fá innsýn í þeirra störf þegar lögreglan mun greina frá öllum útköllum á samskiptavefnum Twitter, sem er hluti af alþjóðlegu tíst-maraþoni lögregluliða.

„Aðaltilgangurinn er að gera fólki grein fyrir því hversu víðfeðm störf lögreglunnar eru. Hversu fjölbreytt útköll okkar og vinna okkar í raun og veru er,“ segir Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Hann heldur utan um verkefnið ásamt lögreglustjóranum Stefáni Eiríkssyni.

Fyrir um hálfu ári hófst undirbúningur að alþjóðlegu tíst-maraþoni, sem kallast Global police tweet-a-thon á ensku, og mun það fara fram á föstudag.

„Lögreglulið taka þátt um að tísta öllum sínum verkefnum í ákveðinn tíma. Við ætlum að taka þátt í tólf tíma, frá kl. 18 á föstudagseftirmiðdegi þangað til 6 á laugardagsmorgni,“ segir Þórir.

„Við ætlum að segja frá öllum útköllum sem koma til okkar. Það er 161 lögreglulið í heiminum sem ætla að taka þátt,“ segir hann og bætir við að öll lögregluliðin muni nota Twitter til þess að segja frá sínum verkefnum.

Lögreglan virk á Facebook og Twitter

Undanfarin ár hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið virk á samskiptamiðlunum Facebook og Twitter, en LRH hefur verið með aðgang að þeim frá því í desember 2010. Lögreglustjórinn hefur einnig verið virkur á Twitter og aðspurður segir Þórir að lögreglan sé afar ánægð með viðtökurnar.

Spurður hvort hann telji að almenningur hafi of einhliða sýna á störf lögreglumanna þá segir Þórir, að stundum geti orðið til einhver fyrirfram ákveðin mynd af störfum og verkefnum þeirra.

„Það sem kemur mörgum á óvart, sem komast svo í nánara tæri við lögregluna, er hvað verkefnin eru ofboðslega fjölbreytt. Þannig að þetta snýst um svo miklu, miklu, meira en bara umferðarmál, bara innbrot, eða bara hitt eða bara þetta.“

Enginn dagur eins

„Það er öll flóran af vandamálum mannlífsins sem koma inn á okkar borð,“ segir Þórir ennfremur. Lögreglunni sé því ekkert mannlegt óviðkomandi. Þeir sem hefji störf hjá lögreglunni geri það ekki síst vegna fjölbreytileikans. „Það er enginn dagur eins og það er alltaf eitthvað nýtt að gerast.“

Tilgangurinn með samskiptamiðlunum sé að breikka sýn almennings á störf lögreglunnar. Einnig að koma því á framfæri sem lögreglunni þyki vera mikilvægt og hvað hún geti gert til að koma upplýsingum áleiðis. Með þessu sé hægt að skapa meiri nálægð á milli lögreglu og almennings.

Snýst um góð samskipti

„Þetta eru ekki bara einhliða samskipti frá okkur til almennings - þetta eru ekki bara einhverjar skilaboðasendingar - heldur getur almenningur líka haft samband og talað við okkur í gegnum alla þessa miðla. Þetta verður samskiptaleið,“ segir Þórir og bætir því við að lögreglan vilji eiga í góðum samskiptum við fólk.

Þórir tekur fram að netnotendur þurfi ekki að vera með aðgang að Twitter til að fylgjast með því sem er að gerast. Það sé nóg að fara á Twitter-síðuna og verður svæðið opið. Þá verður einnig hægt að fylgjast með útköllum hjá öðrum lögregluliðum í heiminum. Öll liðin er með #poltwt og lögregla ná höfuðborgarsvæðinum með #LRH.

Þórir segir að verkefnið sé unnið í samráði við Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, sem hefur það verkefni að senda verkefni á lögreglumenn, en þar verður lögreglan til húsa á meðan maraþonið stendur yfir.

Kort sem sýnir frá hvaða lögreglulið muni taka þátt í tíst-marþoninu.

Störf lögreglumanna eru fjölbreytt.
Störf lögreglumanna eru fjölbreytt. mbl.is
Stefán Eiríksson lögreglustjóri hefur verið afar virkur á Twitter.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri hefur verið afar virkur á Twitter. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert