Viðræður standa yfir um þinglok

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn

Viðræður standa nú yfir um möguleg þinglok á milli forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, og formanna stjórnmálaflokkanna. Að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra þingsins, eru viðræðurnar nú framhald af þeim viðræðum sem hófust í gærkvöldi en ákveðið hafi verið að boða ekki til þingfundar fyrr en fyrir liggur hvað komi út úr þeim.

Helgi segir í samtali við mbl.is að það skýrist væntanlega þegar líður á daginn hvort samkomulag takist um málið. Ákveðin snurða hafi hlaupið á þráðinn í gærkvöldi en verið sé að reyna að leysa úr þeim málum. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur það staðið viðræðum nokkuð fyrir þrifum að erfiðlega hafi gengið að ná formönnum flokkanna saman. Þá sé enn allt á huldu hvort samkomulag kunni að takast um þinglok.

„Menn hafa þennan dag í dag til þess að leysa málið en ef það tekst ekki þá veit ég satt best að segja hvað gerist næst. Auðvitað leysist þetta einhvern tímann fyrir rest með góðu eða illu en ég held að tækifærið til þess sé núna,“ segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is spurður um stöðuna í málinu.

Hann segir að verið sé að reyna til þrautar að ná samkomulagi en enn vanti til að mynda að stjórnarflokkarnir leggi fram raunhæfan lista yfir þau mál sem þeir vilji klára fyrir þinglok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert