Helgi í Góu: Tengist ekki sölu á páskaeggjum

Helgi Vilhjálmsson.
Helgi Vilhjálmsson. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Helgi Vilhjálmsson, Helgi í Góu, segir það ekki rétt sem haldið hafi verið fram í fjölmiðlum að auglýsing sem hann birti í dagblöðum um aðbúnað aldraðra, tengist sölu á páskaeggjum. Því fari víðsfjarri.

Í auglýsingunni var m.a. birt úrklippa af frétt DV um þær aðstæður sem Páll Bergþórsson og kona hans voru í er hún fékk pláss á hjúkrunarheimili en Páll gat ekki búið þar með henni. Páll hefur gagnrýnt þessa auglýsingu.

„Sú úrklippa var birt með leyfi DV sem skrifaði þá frétt,“ segir í yfirlýsingu Helga. „Sú frétt var birt í kjölfar þess að Páll benti fjölmiðlum á það óréttlæti sem í því felst að aðskilja þau hjónin. Fór hann á þeim tíma í blaðaviðtöl og sjónvarpsviðtal.

Í þessu máli kristallast það vandamál sem undirritaður hefur ítrekað bent á undanfarin ár og þó svo að Páll hafi með því að vekja athygli á sínu máli fengið lausn sinna mála, hefur lausn fyrir fjöldann ekki enn komið í ljós. Lausn fyrir Pál og hans konu ber að fagna og best væri ef allir í þeirra stöðu gætu einnig fagnað. Á það er ég að benda og mun halda áfram að gera þar til athygli ráðamanna og lífeyrissjóða beinist að því að leysa það mál. Það ætti einnig að vera markmið Páls enda hefur hann upplifað þetta ranglæti.“

Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir svo:

„Samkvæmt frétt Fréttablaðsins er þessi aðgerð mín tengd við sölu á páskaeggjum en þar fer víðsfjarri og þykir mér ómaklegt að tala um þá baráttu sem ég hef staðið í undanfarin ár á þann hátt að ég hafi verið að reyna að selja nokkur páskaegg. Kosningar eru á vorin og það eru páskar líka. Þessi barátta mun halda áfram eftir að páskum lýkur.“

Frétt mbl.is: „Dálítið ómaklegt hjá honum“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert