Myndband er til af því sem gerðist

Í nóvember á síðasta ári rak Herjólfur skrúfuna í vestari …
Í nóvember á síðasta ári rak Herjólfur skrúfuna í vestari hafnargarðinn við Landeyjahöfn. mbl.is/Styrmir Kári

Myndskeið er til af því þegar Herjólfur slóst upp í vestari grjótgarð Landeyjahafnar í lok nóvember á síðasta ári. Myndskeiðið verður hluti af skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa um óhappið, en stefnt er að því að birta skýrsluna í vor eða byrjun sumars.

Í nóvember á síðasta ári rak Herjólfur skrúfuna í vestari hafnargarðinn við Landeyjahöfn. Bakborðsstýri og -skrúfa skemmdust og tók nokkra daga að gera við skipið í slipp. Ástæða fyrir þessu óhappi eru straumar í hafnarkjaftinum sem báru skipið upp að garðinum.

Myndbandsupptökuvélar eru í Herjólfi og einnig eru upptökuvélar í landi. Rannsóknanefnd sjóslysa er með þessar myndir, en þær eru hluti af skýrslu nefndarinnar.

Nefndin er að ljúka rannsókn á málinu. Skýrslan var tekin til umræðu á fundi nefndarinnar í dag. Á fundinn mættu fulltrúar Siglingastofnunar.

Í kjölfarið verður skýrslan send til umsagnaraðila sem fá tækifæri til að gera athugasemdir við hana. Skýrslan verður síðan birt opinberlega.

„Snarræði skipstjóra og, vélakraftur“ komu í veg fyrir eða ekki fór verr

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Herjólfur lendir í vanda við að sigla inn í höfnina, en Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur fengið þrjú mál  sem varða Herjólf og Landeyjahöfn til rannsóknar. Í öllum málunum snérist ferjan þegar hún var að sigla inn í hafnarmynnið.

Fyrsta tilvikið kom upp í nóvember 2010. Þegar skipið var komið rétt inn fyrir hafnargarðana fékk það öldu undir sig að aftan með þeim afleiðingum að það snérist í innsiglingunni.  Skipstjóra tókst að snúa því aftur og sigla að bryggju.

Í júní 2011 lá við að ferjan lenti upp í grjótgarðinum. Þegar skipið átti um 200 m eftir í innsiglinguna bar löng alda það skyndilega um 40 m út af leið til vesturs.  Þegar það átti eftir um 70-80 m í grjótgarðinn tókst skipstjóranum að ná stjórn á skipinu aftur með því að beita fullu vélarafli.  Skipið sigldi inn í höfnina undir um 30° horni og var um 30 m frá garðinum þegar það var næst honum.

Rannsóknarnefnd sjóslysa telur „að snarræði skipstjóra, vélakraftur og stjórnbúnaður skipsins hafi forðað því að ekki fór verr við þær aðstæður sem sköpuðust við innsiglinguna.“

Nefndin telur ljóst að dýpi í aðsiglingu að höfninni hafi engan vegin verið fullnægjandi fyrir skip með djúpristu eins og Herjólfur hefur.  Nefndin telur að stjórnhæfni Herjólfs sé góð en áhrif lóðrétts sogs vegna dýpis og djúpristu, veðurs, öldu og strauma valdi mikilli hættu.  Mikillar varúðar verði því að gæta við ákvarðanir um siglingar til Landeyjahafnar.

Tortryggni og togstreita

Landeyjahöfn er umdeild höfn og þegar í ljós kom að rekstur hennar yrði erfiðari en reiknað var með hafa margir komið fram sem telja sig vita hvernig á að leysa málin. Ásakanir um mistök við gerð hafnarinnar hafa gengið á víxl og skapað tortryggni. 

Rannsóknarnefnd sjóslysa víkur einmitt að þessari tortryggni í áliti sínu og segir að togstreita sem hefur verið í kringum Landeyjahöfn „sé ekki til þess fallin að gera umræður um öruggar siglingar til hennar málefnalegar. 

Nefndin bendir á að siglingar um flestar hafnir landsins séu varhugaverðar við ýmsar ytri aðstæður eins og umferð um flest önnur samgöngumannvirki.  Þetta er nýjasta höfn landsins og eðlilegt að menn þurfi tíma til að læra á hana sérstaklega með tilliti til öryggis.“

Nefndin telur Herjólf ekki vera vandamál

Ingi Tryggvason, formaður Rannsóknarnefndar sjóslysa, sagði í samtali við Morgunblaðið í desember að Landeyjahöfn væri vandamálið, ekki Herjólfur.

Nefndin skrifaði Siglingastofnun og lýsti yfir áhyggjum af öryggi skips, áhafnar og farþega. Ingi vísar í atvikið frá 2011 og segir að atvik sem síðar hafi orðið hafi ekki dregið úr áhyggjum nefndarinnar – heldur þvert á móti.

Herjólfur að koma til hafnar í Landeyjahöfn í vikunni.
Herjólfur að koma til hafnar í Landeyjahöfn í vikunni. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert