Straumar valda Herjólfi erfiðleikum

Herjólfur siglir sína fyrstu ferð frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn.
Herjólfur siglir sína fyrstu ferð frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn. mbl.is/Rax

Miklir straumar eru fyrir framan Landeyjahöfn, sem hafa valdið þeim sem stýra Herjólfi erfiðleikum. Skipið hefur oftar en einu sinni snúist í hafnarmynninu. Ekki eru allir sannfærðir um að minna og aflminna skip en Herjólfur, eins og rætt er um að smíða, ráði við þessa strauma.

Búið er að fjalla mikið um sandflutninga í Landeyjahöfn og hvernig hægt sé að minnka þá. Vandamál við rekstur Landeyjahafnar tengjast ekki bara sandburði inn í höfnina. Sterkir straumar eru við hafnargarðana og þeir hafa valdið þeim sem stýra Herjólfi miklum erfiðleikum og áhyggjum. Auk straumanna verður að hafa í huga að skipið er stórt og tekur á sig mikinn vind.

Framan við hafnargarða Landeyjahafnar er áll eða renna og framan við hann er sandrif. Hafnargarðarnir ná út í miðjan álinn og þrengja að straumnum sem um hann rennur. Einn viðmælandi mbl.is sagði að garðarnir gerðu það að verkum að straumurinn við hafnarkjaftinn væri meiri en ef garðarnir væru ekki til staðar. Hann líkti þessu við það sem gerist þegar klipið er fyrir garðslöngu. Sama magn af vatni reyndi að þrýsta sér í gegn og krafturinn á vatninu yrði meiri.

Skoða að lengja hafnargarðana

Settar hafa verið fram hugmyndir um að lengja hafnargarðana út fyrir álinn og út á sandrifið. Sigurður Áss Grétarsson, verkfræðingur hjá Siglingastofnun, segir að gera þurfi miklu meiri rannsóknir á þessu áður en hægt sé að svara því hvort þetta sé gerlegt. Hann segir að aldrei áður hafi verið reynt að byggja hafnargarða á sandrifi og viss hætta sé á að sjórinn grafi undan görðunum og þeir hrynji.

Hættan á því að ferjan bærist upp í hafnargarðana var þekkt þegar höfnin var hönnuð og því voru nokkrir stórir tréstaurar reknir niður við enda hafnargarðanna sem áttu að taka við skipinu ef það færi að snúast og koma í veg fyrir að það færi utan í garðana. Staurarnir voru upphaflega 10, en aðeins tveir eru eftir. Hinir hafa fallið í sjóinn vegna brims, en einnig er talið að sanddæluskip hafi rekist í þá eða grafið undan þeim.

Siglingastofnun lét í vetur setja upp nýjan straummæli við Landeyjahöfn, en honum er ætlað að gefa þeim sem stýra skipinu betri upplýsingar um strauma úti fyrir höfninni. Með mælingunum geta þeir betur áttað sig á aðstæðum við höfnina því að mælirinn skilar rauntímaupplýsingum. Stofnunin vonast eftir að þetta auki öryggi við siglingar inn í höfnina og hægt verði að byggja á betri upplýsingum þegar ákveðið er að sigla inn eða ekki í höfnina.

Er nýtt aflminna skip lausnin?

Þegar fjallað hefur verið um rekstur Landeyjahafnar hefur ítrekað verið sagt að höfnin hafi ekki verið hönnuð fyrir núverandi Herjólf. Alltaf hafi verið reiknað með að byggja þyrfti nýtt skip sem risti grynnra. Herjólfur ristir 4,5 metra en talað hefur verið um að nýtt skip risti 2,8 metra.

Núverandi Herjólfur er mjög öflugt sjóskip. Hann er búinn tveimur vélum sem skila 2.700 kW orku. Þessar öflugu vélar hafa skipt miklu máli þegar skipið hefur verið að takast á við sterka strauma í hafnarmynninu. Spurningin er hvernig minna skipi með minna vélarafl gengur að fást við þessa strauma?

Vinnuhópur sem vann þarfagreiningu fyrir nýjan Herjólf leggur í tillögum sínum höfuðáherslu á að Landeyjahöfn verði heilsárshöfn. Hópurinn leggur til að smíðað verði minna skip og það verði með minna vélarafl en núverandi Herjólfur.

Sú spurning vaknar hvað gerist ef ekki tekst að reka Landeyjahöfn sem heilsárshöfn. Getur minni og aflminni Herjólfur þá siglt til Þorlákshafnar yfir háveturinn?

Þessi mynd var tekin í fyrra sumar. Staurunum sem eru …
Þessi mynd var tekin í fyrra sumar. Staurunum sem eru við hafnargarðinn hefur fækkað síðan. mbl.is/Ómar Óskarsson
Aðeins tveir staurar eru eftir við hafnargarðana en þeir voru …
Aðeins tveir staurar eru eftir við hafnargarðana en þeir voru upphaflega 10. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert