Ekkert hlustað á Neytendasamtökin?

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

Neytendasamtökin velta því fyrir sér á vefsvæði sínu hvort Alþingi taki yfirleitt mark á umsögnum sem unnar eru um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur og reglugerðardrög. Undanfarin fimm ár hafa samtökin þannig sent frá sér um 130 umsagnir.

Vakið er máls á spurningunni vegna úrvinnslu Alþingis á umsögn samtakanna um frumvarp til laga um neytendalán. „Reynt er að vanda til verka og koma sjónarmiðum neytenda á framfæri. [...] [Má] þó velta fyrir sér hvort þessi vinna þjóni nægilegum tilgangi eða hvort samtökin tali fyrir daufum eyrum.“

Þá er það nefnt að ekki öll hagsmunasamtök tala fyrir daufum eyrum. Samkvæmt skýrslu sem Viðskiptaráð gaf út í júní 2006 var niðurstaða Alþingis í 90% tilvika í samræmi við umsagnir ráðsins.

„Starfsfólk Neytendasamtakanna hefur lengi haft hug á því að búa til sambærilega skýrslu um afdrif umsagna samtakanna, en það verkefni hefur því miður þurft að víkja fyrir öðrum mikilvægari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert