Undirgefin og föst í lygavef

Erla Bolladóttir sagði rannsakendum það sem hún hélt að þeir …
Erla Bolladóttir sagði rannsakendum það sem hún hélt að þeir vildu heyra. Hér situr hún í Sakadómi.

Erla Bolladóttir var líklega yfirheyrð 105 sinnum á meðan hún sat í gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsinu vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna frá 20. desember 1975 til 15. september 1976 er hún var færð í Hegningarhúsið. Erla var þó laus úr varðhaldi á tímabilinu 20. desember 1975 til 4. maí 1976.

Samanlögð skráð tímalengd viðtala og yfirheyrsla á þessum tíma er rúmlega 120 klukkustundir (fimm sólarhringar), en gera má ráð fyrir að heildartíminn sé mun lengri því tímalengd sumra viðtala og yfirheyrsla er ekki skráð.

Þetta kemur fram í kafla um Erlu í skýrslu starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál sem kom út í dag. Þar kemur fram að mat skýrsluhöfunda sé að langar yfirheyrslu og aðskilnaður frá nýfæddri dóttur hennar hafi orðið til þess að hún sagði rannsakendum það sem hún hélt að þeir vildu heyra. Hún hafi verið undirlát og lagt sig fram við að þóknast öðrum, m.a. rannsakendum.

„Eftir að hafa farið vandlega yfir gögn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna eru höfundar þessa kafla þeirrar skoðunar að framburður Erlu í báðum málunum sé án nokkurs vafa óáreiðanlegur,“ segja skýrsluhöfundar m.a. um játningu Erlu.

Haldin sjálfspíslarhvöt

Í geðrannsókn sem Ásgeir Karlsson geðlæknir framkvæmdi á Erlu vorið 1976 segir m.a. að hún hafi „hysteriskan persónuleika“ og sé „áberandi óvirk og undanlátssöm gagnvart öðrum, jafnvel svo að jaðraði við masochisma.“

Erla sagði í viðtali við starfshópinn að hún hefði sagt rannsakendum frá draumi er hún sat í gæsluvarðhaldi vegna svokallaðs póstsvikamáls í desember 1975. Í draumnum, sem hana dreymdi um það leyti sem Guðmundur Einarsson hvarf, heyrði hún einhverja hvísla fyrir utan húsið og taldi það vera vonda menn.

Erla sagði að við fyrstu yfirheyrslurnar í Guðmundarmálinu hefði Örn Höskuldsson, sem stjórnaði rannsókninni, túlkað þennan draum á þann hátt að hún hefði orðið vitni að alvarlegum atburðum og að rannsakendur ætluðu að hjálpa henni að muna hvað hefði gerst.

Í framhaldi af þessu hafi Örn gert henni grein fyrir því að hún slyppi ekki úr fangelsinu fyrr en hún hefði skýrt frá. Daginn eftir hafi hún svo lýst atburðarásinni líkt og draumurinn væri veruleiki og bendlað nokkra menn við málið. Að þessu loknu var skýrsla skrifuð eins og um staðreyndir væri að ræða en hvergi var getið um efasemdir Erlu.

Erlu fannst eftir þetta að hún yrði að hafa haft rétt fyrir sér því hún skammaðist sín fyrir að hafa flækt fjóra unga menn í morðmál.

Sannfærð að framburðurinn var rugl

Erla sagði að undanfarin ár hafi hún orðið fullviss um að framburður hennar í Guð-mundarmálinu væri algjört rugl og að þeir atburðir sem hún lýsti hafi alls ekki gerst. Hún sagðist viss um að málið byggðist á draumi hennar, hugmyndum rannsakenda og hennar eigin ímyndunarafli.

Í yfirlýsingu Erlu frá 13. október 1976 segist hún hafa fengið sprautu hjá geðlækni deginum áður, „til þess að geta munað eftir atburðunum sem hún gæti ekki lengur rifjað upp“. Í bók sinni sem kom út árið 2008 lýsir hún því að Ásgeir Karlsson geðlæknir hafi verið fenginn til að hjálpa henni til að rifja meira upp um Geirfinnsmálið. Henni hafi verið gefið lyf í æð, hann hafi reynt að dáleiða hana, og hún spurð spurninga um málið.

Erla sagði að sér hefði verið haldið á lyfjum í gæsluvarðhaldinu sem hefði gert hana sljóa og dregið úr henni kraft.

Í viðtali við starfshópinn segist Erla ítrekað hafa reynt að draga framburð sinn í Geirfinnsmálinu til baka en í því bendlaði hún fjóra menn, m.a. bróður sinn við, mannshvarfið. Hún segir að aldrei hafi verið á sig hlustað.

Háð rannsakendum

Erla lýsti því í viðtalinu að hún hefði verið orðin mjög háð rannsakendum Guðmundarmálsins og litið á suma þeirra sem trúnaðarvini sína. Hún lýsti því bæði í bók sinni og í viðtölum við starfshópinn að í júlí 1976 hefði einn rannsakenda misnotað hana kynferðislega í fangaklefa í Síðumúlafangelsi. Hún sagði að lengi framan af hefði hún kennt sjálfri sér um það sem gerðist og atvikið hefði haft mjög neikvæð áhrif á hana og dregið úr baráttuþreki hennar því hann var viðstaddur yfirheyrslurnar í framhaldinu.

Erla greindi starfshópnum frá nafni mannsins.

Þreytt og algjörlega hjálparlaus

Í niðurstöðu skýrsluhöfunda segir m.a. að öll þrjú málin, póstsvikamálið, Guðmundarmálið og Geirfinnsmálið, eru líkleg til að hafa haft vaxandi áhrif á sálræna viðkvæmni Erlu, hjálparleysi hennar og vilja til að breyta framburði sínum ítrekað.

„Þegar hún hafði játað aðild að Geirfinnsmálinu var hún orðin þreytt, algjörlega hjálparlaus og föst í lygavef og það, ásamt samspili sálrænna þátta, sem gerðu hana viðkvæma fyrir yfirheyrslum, og aðstæðum við yfirheyrslurnar í Síðumúlafangelsi, leiddi til þess að hún fór að þóknast rannsakendunum og sagði þeim sögu sem hún taldi að þeir vildu heyra og var líkleg til að taka þrýstinginn af henni. Svo virðist sem hún hafi litið á það sem einu leið sína til að komast af við þessar óbærilegu aðstæður sem hún var komin í. Þetta varð til þess að hún gaf framburð sem er án nokkurs vafa óáreiðanlegur og flækti fleiri einstaklinga í málið.“

Erla Bolladóttir þungt hugsi við réttarhöldin.
Erla Bolladóttir þungt hugsi við réttarhöldin.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert