Auðveldara fyrir Baldur að halda stefnu

Herjólfur í Landeyjahöfn.
Herjólfur í Landeyjahöfn. mbl/Styrmir Kári

Sigurður Áss Grétarsson, verkfræðingur hjá Siglingastofnun Íslands, segir ljóst að Herjólfur henti ekki til siglinga við þær aðstæður sem eru við Landeyjahöfn. Breiðafjarðarferjan Baldur, sem er aflminna skip en Herjólfur, hafi þrátt fyrir það átt auðveldara með að sigla inn í höfnina en Herjólfur.

Í greinaflokki um Landeyjahöfn, sem birtist á mbl.is um helgina, kemur fram að áformað er að nýr Herjólfur verði helmingi aflminna skip en núverandi Herjólfur. Jafnframt kom þar fram að sterkir straumar eru við hafnarmynnið og að þörf sé á öflugu skipi til að fást við þá.

Sigurður Áss bendir á að Breiðafjarðarferjan Baldur hafi leyst Herjólf af með siglingar milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja  í tvígang í september 2011 og nóvember/desember 2012.  Baldur sé aðeins með afl upp á 2x919 kW, þ.e. töluvert aflminna skip en Herjólfur með sín 2x2700 kW.  

„Baldur er ekki hannaður til siglinga á hafsvæðum eins og á milli lands og Eyja en það hafsvæði flokkast sem B-hafsvæði skv. Evróputilskipun.  Baldur hefur hins vegar siglt við verulega verri aðstæður en Herjólfur en þrátt fyrir það átt auðveldara með að sigla inn í höfnina en Herjólfur.  Herjólfur rásar til en Baldur heldur stefnu. Baldur hefur getað siglt í ölduhæð í yfir 3 m án erfiðleika, síðast sigldi hann ekki yfir þeirri ölduhæðin því Siglingastofnun leyfði það ekki þar sem hann hefur ekki leyfi til að sigla nema þegar ölduhæðin er undir 3 m. Því Baldur uppfyllir kröfur sem gerðar eru til ferja sem sigla á svokölluðu C-hafsvæði en hafsvæðið milli lands og Eyja er B-hafsvæði. Herjólfur hefur átt í erfiðleikum með að sigla í Landeyjahöfn ef ölduhæðin fer yfir 2,5 m.

Meginmálið er að Herjólfur hentar ekki til siglinga við þær aðstæður sem eru við Landeyjahöfn.  Herjólfur er vandamál sem leysist ekki nema með nýrri ferju eða ef gerðar verða breytingar á honum,“ segir Sigurður Áss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert