Dó sem hetja

Andri Már Þórðarson og Örvar Arnarson
Andri Már Þórðarson og Örvar Arnarson

Að sögn Melenie Snow, fjölmiðlafulltrúa lögreglunnar í Pasco-sýslu, reyndi Örvar Arnarson að aðstoða Andra Má Þórðarson áður en þeir létust í fallhlífarstökkslysi á laugardag.

Fram kom á fréttamannafundi sem lauk nú fyrir skömmu að Örvar var með myndavél á hjálminum sem tók upp stökkið. Á henni kom, að sögn Melenie, fram að Andri Már lenti í vandræðum og að Örvar reyndi að koma til bjargar.

„Við sjáum allt á myndbandinu. Við getum ekki sagt frá öllu sem fram kemur í myndbandinu, en við getum staðfest að um slys var að ræða. Við getum einnig sagt að nemandinn var í vandræðum og leiðbeinandinn, Örvar, reyndi að aðstoða hann. Það er óhætt að segja að hann hafi látist sem hetja,“ segir Melenie Snow. 

Hún segir að hvorug aðalfallhlífin hafi opnast en aðeins önnur varafallhlífin. Það hafi hins vegar verið of seint. Báðir létust við höggið þegar þeir komu til jarðar.

Rannsókn stendur enn yfir á málinu. Þar er meðal annars rannsakað hvort aðbúnaðurinn hafi brugðist eða hvort slysið hafi orðið af öðrum orsökum. Myndband af stökki Örvars og Andra Más verður ekki gert opinbert.

Leiðrétting: 10:26 27.03

Fram kemur á blaðamannafundi lögreglustjórans í Pasco-sýslu í Flórída, Chris Nocco, og rannsóknarlögreglumannsins William Lindsey að báðar varafallhlífarnar opnuðust. Haft var eftir Melenie Snow að aðeins önnur varafallhlífin hafi opnast en það er ekki rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert