Engar kvikuhreyfingar mælast

Hekla séð frá Gunnarholtsvegi
Hekla séð frá Gunnarholtsvegi mbl.is/Sigurður Bogi

Sjö jarðskjálftar hafa mælst við Heklu á undanförnum tveimur vikum. Svo margir skjálftar á svo stuttum tíma hafa ekki mælst þar síðan síðast gaus. Engar kvikuhreyfingar mælast, enn sem komið er, og ef um annað eldfjall væri að ræða hefðu jarðfræðingar ekki nokkrar áhyggjur. Þetta segir jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag hafa almannavarnir lýst yfir óvissustigi vegna Heklu. „Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf. Óvissustigi er lýst yfir til þess að upplýsa viðeigandi viðbragðsaðila og er ákveðið ferli í skipulagi almannavarna og það lægsta af þrem,“ segir í tilkynningunni.

Að sögn jarðfræðings á Veðurstofu Íslands er um að ræða sjö skjálfta sem mælast um 4,5-5 km frá toppi Heklu og á 11-12 km dýpi. Þeir eru allir á svipuðum slóðum en engar kvikuhreyfingar mælast. Um er að ræða nokkuð djúpa skjálfta. Þá hafa engar breytingar mælst á gps-tækjum.

Jarðfræðingar munu fylgjast grannt með Heklu en eina ástæðan fyrir því að haft var samband við almannavarnir er sú að Hekla gerir sjaldnast boð á undan sér, nema rétt áður en hún gýs. Hefði þetta verið eitthvað annað eldfjall hefðu jarðhræringar sem þessar ekki talist óeðlilegar. En þar sem þetta eru óeðlilegar jarðhræringar við Heklu, eldfjall sem fólk gengur á, var ákveðið að taka þetta skref.

Skjálftarnir gætu bent til þess að þrýstingi sé að létta en hann hefur byggst upp síðan síðast gaus í Heklu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert