Tillaga Árna Páls samþykkt til 3. umræðu

Frá Alþingi í kvöld.
Frá Alþingi í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Alþingi samþykkti í kvöld með 24 atkvæðum gegn 3 atkvæðum að tillaga Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar varðandi tímabundnar breytingar á stjórnarskrá um hvernig breyta megi stjórnarskrá á næsta kjörtímabili án þess að boða til kosninga gengi til 3. umræðu. 22 þingmenn greiddu ekki atkvæði.

Stjórnarþingmennirnir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Samfylkingu, og Álfheiður Ingadóttir, Vinstri grænum, stigu í ræðustól og sögðust ekki geta stutt tillöguna.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, sagði dóm Hæstaréttar sem felldi úr gildi kosningu til Stjórnlagaþings hafa nánast gengið að stjórnarskrárbreytingum dauðum en að aftur hafi tekist vinnunni af stað. Hann sagðist þó ætla að styðja málið.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagði mörkin um 40% samþykkti of háan þröskuld og að hún gæti því ekki stutt málið.

Þingmenn Hreyfingar greiddu allir atkvæði gegn tillögunni.

Tillagan gengur nú til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og síðan til þriðju umræðu.

40% atkvæðabærra manna verða að samþykkja

Tillagan er svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 79. gr. er heimilt, fram til 30. apríl 2017, að breyta stjórnarskránni með eftirfarandi hætti: Samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 2/3 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Til þess að frumvarpið teljist samþykkt þarf það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þó minnst atkvæði 40 af hundraði allra kosningarbærra manna, og skal það staðfest af forseta lýðveldisins og telst þá gild stjórnarskipunarlög. Í heiti frumvarps til stjórnarskipunarlaga á þessum grundvelli skal koma fram tilvísun til ákvæðis þessa.“

Árni Páll Árnason á Alþingi í kvöld.
Árni Páll Árnason á Alþingi í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert