Utanbæjarfólk læsir bílunum fyrir vestan

Mugison á Aldrei fór ég suður í fyrra
Mugison á Aldrei fór ég suður í fyrra mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Þetta lítur rosavel út. Hátíðin byrjar formlega á morgun klukkan 18:00. Við höfum í rauninni ekki hugmynd um hvað margir mæta því við rukkum ekkert inn,“ segir Jón Þór Þorleifsson, rokkstjóri tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður. Hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 29. og 30. mars.

„Síðustu tvo daga höfum við breytt íþróttahúsinu á Ísafirði í tónleikahús. Fjallabræður verða með risatónleika þar í kvöld, áður en hátíðin hefst formlega. Svo erum við líka með endurvinnslustöð Gámaþjónustu Vestfjarða til afnota fyrir tónleikahald,“ segir Jón Þór.

„Ég veit aldrei hvað koma margir á þessa hátíð okkar. Besta og vísindalegasta aðferðin sem við höfum fundið upp til að finna út hvað margir koma í bæinn er að opna bílhurðir. Fyrir þremur árum reyndum við að opna af handahófi tíu bíla. Sex af þeim voru læstir, þannig að við gerum ráð fyrir að sex af hverjum tíu séu utanbæjarfólk,“ segir Jón Þór. „Miðað við þetta ætti að bætast 60% við íbúafjöldann í bænum. Bílaumferð um þessa helgi hefur reyndar þrefaldast síðustu tíu ár og flugið aukist mikið, þannig að þetta er töluvert af fólki.“

Mugison, Fjallabræður, Hörmung og Athygli

„Það eru 26 bönd að spila í ár. Þeirra á meðal eru Fjallabræður og Ragga Gísla, hljómsveitin Dolby, sem hefur ekki spilað í 20 ár. Svo eru tvær „heimahljómsveitir“ sem heita Hörmung og Athygli sem spila. Þetta eru unglingahljómsveitir, en þau fá jafnmikinn tíma og Mugison og allir aðrir. Mugison kom til landsins í gær eftir túrinn með Of Monsters and Men, þannig að hann verður sjóðandi heitur,“ segir Jón Þór. „Veðrið er líka frábært, klikkað skíðafæri og alveg smekkfullt af fólki. Það er lítið eftir af rúmum í bænum, en ég held það sé eitthvað laust bæði á Suðureyri og útí Vík. Maður er bara kortér að keyra frá Suðureyri,“ segir Jón Þór.

„Við fáum reglulega fyrirspurnir um hvað kostar á hátíðina, og svarið er alltaf það sama: „Ekkert!“ Það eru góð fyrirtæki sem hjálpa okkur, svokallaðir Foreldrar. Í ár eru foreldrarnir fimm, Flugfélag Íslands, Samskip, Landsbankinn, Orkusalan og Kampi, sem er rækjuvinnslan á Ísafirði. Svo er fullt af öðrum fyrirtækjum sem hjálpa okkur, og fólkið í bænum leggur líka sitt af mörkum,“ segir Jón Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert