Ekki jafn sólríkt síðan 1999

Gönguferð í Reykjavík.
Gönguferð í Reykjavík. Morgunblaðið/Ómar

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 162,5 í marsmánuði og er það 51 stund umfram meðallag. Svo sólríkt hefur ekki verið í mars í Reykjavík síðan árið 1999. Úrkoma mældist 41,3 mm og er það um helmingur meðalúrkomu í mars. Síðast var mars ámóta þurr í Reykjavík árið 2005.

Þetta kemur fram í veðuryfirliti Veðurstofu Íslands. Þar segir einnig að hiti hafi verið lítillega yfir meðallagi um landið sunnan- og vestanvert og á vestanverðu hálendinu en rétt um eða undir meðallagi á Norðaustur- og Austurlandi. Meðalhiti í Reykjavík var 1,2 stig sem er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Meðalhiti á Akureyri var -1,4 stig og er það um -0,2 stigum undir meðallagi sömu ára.

Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 3,0 stig, en lægstur á Brúarjökli, -7,7 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -4,9 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Dalatanga þann 25. mars, 15,7 stig, á mönnuðu stöðinni á sama stað mældust þá 14,5 stig og mældist hvergi meiri á kvikasilfursmæli í mánuðinum.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -18,1 stig. Það var við Gæsafjöll þann 5. mars. Lægsti hiti í byggð mældist í Möðrudal þann 26.mars, -17,4 stig. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -15,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 26. mars.

Þann 5. mars fór hiti ekki upp fyrir frostmark á nokkurri veðurstöð á landinu. Það gerðist síðast 9. desember 2011.

Snjólétt var á landinu sunnan- og vestanverðu en töluverður snjór norðaustanlands. Alhvítir dagar voru aðeins tveir í Reykjavík, um 10 dögum undir meðallagi áranna 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 25 í mánuðinum og er það 6 dögum yfir meðallagi sama tímabils

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert