Mjög hlýir fyrstu mánuðir

Afar hlýtt hefur verið í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins.
Afar hlýtt hefur verið í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins. Morgunblaðið/Ómar

Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa verið mjög hlýir í Reykjavík og eru í þriðja sæti frá upphafi samfelldra mælinga, þ.e. 1871. Nokkru hlýrra var á sama tíma árin 1929 og 1964. Sama á við um tímabilið desember 2012 til mars 2013.

Í veðuryfirliti Veðurstofu Íslands segir að veturinn í Reykjavík, þ.e. desember 2012 til mars 2013, hafi verið hlýr. Meðalhiti í Reykjavík var 2,3 stig og hefur aðeins þrisvar verið hærri á sama tíma. Það var árið 1964, 1929 og 2003.

Úrkoma í Reykjavík var hins vegar um 18 prósent ofan meðallags á tímabilinu.

Í Stykkishólmi var meðalhitinn 2,5 stig og hefur veturinn verið hlýrri fjórum sinnum; 1964, 1929, 2003 og 1847. Veturinn 2005 til 2006 var jafnhlýr og 1941 og 1942 ómarktækt kaldari.

Á Akureyri eru hlýindin í 18. sæti og var úrkoma þar um 10 prósent undir meðallagi.

Fjórðu hlýjustu í Stykkishólmi

Fyrstu þrír mánuðir ársins í Stykkishólmi eru fjórðu í röð þeirra hlýjustu, en mæliröðin þar nær aftur til ársins 1846. Hlýjast var árið 1964, síðan 1929 og 1847.

Á Akureyri eru hlýindi fyrstu þriggja mánaðanna í 14. sæti (frá 1882), á Teigarhorni í 10. sæti (frá 1873) og í því fjórða í Vestmannaeyjum (frá 1878).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert