Ástæða að skoða upptöku gjalds

Rangárþing eystra rekur salerni fyrir ferðamenn við Seljalandsfoss og rekstrarkostnaðurinn …
Rangárþing eystra rekur salerni fyrir ferðamenn við Seljalandsfoss og rekstrarkostnaðurinn á ári nemur um 2 milljónum króna en engar tekjur koma á móti. mbl.is/Brynjar Gauti

„Mér finnst full ástæða til þess að skoða af fullri einurð að taka eitthvert gjald á svona ferðamannastöðum til þess að geta viðhaldið göngustígum, salernum og þess háttar,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, spurður um afstöðu sína til þeirra hugmynda að taka upp gjald á vinsælum ferðamannastöðum.

Rangárþing eystra rekur við Seljalandsfoss salerni fyrir ferðamenn og kostar til um tveimur milljónum króna á ári vegna þess en hefur ekki nema óbeinar tekjur á móti. Fjölda vinsælla ferðamannastaða má finna í sveitarfélaginu, sem dæmi má nefna Þórsmörk, Fimmvörðuháls og Skógafoss.

„Ég hef sjálfur ekki neina patent lausn á því - það er líka dýrt að vera með menn yfir sumarið á þessum fjölsóttu ferðamannastöðum, eins og við Seljalandsfoss, Skógafoss og svo framvegis. Ég hef kannski ekki lausnina en það er alveg kominn tími til að skoða það af mikilli alvöru að við fáum eitthvað til þess að geta viðhaldið þessum stöðum,“ segir Ísólfur.

Hann segir að starfsmenn sveitarfélagsins hafi nú síðast í morgun farið að Seljalandsfossi til að vinna þar við lagfæringar á göngustígum og fleiru enda mikil ferðamannaumferð nú að sögn Ísólfs.

Eðlilegra að einkaaðilar reki þjónustuna

„Við höfum verið að fá örlítið úr framkvæmdasjóði ferðamála, en þeir peningar duga mjög skammt í þessum efnum. Við fengum 3 milljónir núna til að deiliskipuleggja við Seljalandsfoss. Deiliskipulag á þessum svæðum er forsenda þess að hægt sé að byggja upp þjónustu og á margan hátt er miklu eðlilegra að einstaklingar reki þá þjónustu heldur en sveitarfélög,“ segir Ísólfur.

Hann segir að hugmyndir um að sveitarfélögin sjálf standi í gjaldheimtu á vinsælum ferðamannastöðum flókna í framkvæmd og ítrekar að hann hafi enn ekki séð lausn sem henti í þessum málum. Það sé í raun stórmál að fara að manna þessa staði til að innheimta þessi gjöld.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert