Dómarinn sagði nei

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar.
Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dómari í Al Thani málinu hefur ákveðið að neita verjendum Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar að segja sig frá málinu. Mjög óvenjulegt er, og líklega einsdæmi, að verjendur láti af störfum vegna þess að þeir treysti sér ekki til að undirbúa nauðsynlega vörn í málinu.   

Gestur Jónsson hrl. og Ragnar H. Hall hrl., verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar í svokölluðu Al Thani máli, hafa ákveðið að segja sig frá málinu. Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar og Karl Axelsson, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, ætla hins vegar að halda áfram störfum fyrir skjólstæðinga sína.

Dómarinn hafnaði beiðninni

Það hefur komið fyrir í dómsmálum að sakborningar hafi óskað eftir að fá nýja verjendur, t.d. ef ágreiningur hefur komið upp milli sakbornings og lögmanns hans. Það er þá dómarans að taka ákvörðun um hvort hann fellst á beiðni um að verjandi sé leystur frá málinu. Pétur Guðgeirsson, dómari í Al Thani-málinu, hefur vald til að hafna beiðni Gests og Ragnars um að vísa málinu. Hann tilkynnti þeim bréfleg um kl. 16 í dag að hann hefði ákveðið að hafna beiðninni.

„Við eigum eftir að taka ákvörðun um hvernig við bregðumst við þessu bréfi. Í bréfinu er ekki tekið fram hvort við verðum sóttir ef við mætum ekki,“ sagði Ragnar Hall í samtali við mbl.is. Ragnar hann tók fram að hann hefði ekki ákveðið hvort hann myndi mæta við aðalmeðferðina sem á að hefjast 11. apríl.

Gestur sagði það hins vegar sérstaka stöðu ef verjendur væru skikkaðir til að vinna að vörn í máli þegar þeir væru búnir að lýsa því yfir að þeir treystu sér ekki til að verja skjólstæðinga sína.

Eru að þrýsta á dómstóla

Gestur fór á blaðamannafundi í dag ekki leynt með það að ákvörðun hans um að segja sig frá málinu sé af sinni hálfu hugsuð til að setja þrýsting á dómstólanna, enda er hann afar óánægður með hvernig héraðsdómur, og ekki síður Hæstiréttur, hefur haldið á þessu máli. Hann sagðist aldrei á sínum lögmannsferli, sem spannar yfir 30 ár, hafa tekið svona ákvörðun áður.

Í greinargerð sem Gestur og Ragnar lögðu fram á blaðamannafundi í dag eru talin upp 10 atriði þar sem málsmeðferðin í málinu er gagnrýnd. Sum atriðin beinast að sérstökum saksóknara, en önnur að dómstólunum.

Taldi kæru verjenda ekki kæranlega

„Nú tekur steininn úr,“ sagði Ragnar Hall eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð í síðustu viku og vísaði frá beiðni verjenda að fresta aðalmeðferð Al Thani málsins í 6-8 vikur, en hún á að fara fram 11. apríl. Verjendur vildu fá lengri frest svo þeim gæfist kostur á að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandanum.

Hæstiréttur taldi að ákvörðun héraðsdóms væri ekki kæranleg og tók síðan fram: „Það athugast að kæra þessi er að ófyrirsynju.“

Úrskurður féll áður en verjendur skiluðu greinargerðum

Samkvæmt lögum er hafa verjendur sólarhring til að skila greinargerð um kærur af þessu tagi til Hæstaréttar. Gestur segir að kærendur hafi fengið staðfestingu frá Hæstarétti 4. apríl kl. 10:40 að kærugögn hefðu verið send Hæstarétti þann sama dag kl. 10:25. Hann segir að sólarhringfrestun hefði átt að miðast við þá tímasetningu. Gestur segir að skömmu eftir hádegi þennan sama dag (4. apríl) hafi verið hringt frá Hæstarétti og verjendum tilkynnt að dómar lægju fyrir í kærumálinu. Hann segir ljóst að sólarhringsfresturinn til að skila gögnum hafi þá ekki verið liðinn.

Gestur segir að af úrskurðunum megi ráða að ákæruvaldið hafi sent dómnum greinagerðir um málið. Verjendur hefðu hins vegar verið í miðju verki við að semja greinargerðir í málinu þegar dómurinn féll.

Gestur sagðist telja líkur á að Hæstiréttur hefði komist að annarri niðurstöðu um þetta kæruatriði, þ.e. hvort fresta ætti alaðmeðferðinni, ef verjendur hefðu fengið að skila greinargerðum til Hæstaréttar í málinu.

Minna á gamla ritgerð Eiríks Tómassonar

Gestur bendir á að Eiríkur Tómasson, sem nú situr í Hæstarétti, hafi í ritgerð sem hann skrifaði árið 1999 um réttláta meðferð fyrir dómi bent á sambærilegt mál. Um er að ræða mál manns í Frakklandi þar sem verjandi fékk þar upplýsingar þegar hann skilaði greinargerð í máli mannsins, að búið væri að dæma í málinu.

Í málinu taldi Mannréttindadómstóll Evrópu að brotinn hefði verið réttur á sakborningi vegna þess að dómstóll, sem fjallaði um mál mannsins, hefði verið óvenjulega fljótur að kveða upp dóm á mál hans.

Ragnar Hall, verjandi Ólafs Ólafssonar.
Ragnar Hall, verjandi Ólafs Ólafssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert