Þórður í Skógum heiðraður

Þórður Tómasson í Skógum
Þórður Tómasson í Skógum mbl.is/Ragnar Axelsson

Þórður Tómasson safnvörður og menningarfrömuður að Skógum undir Eyjafjöllum fékk nýverið Landstólpann, samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar.

Þórður hefur byggt upp stærsta byggðasafn á Íslandi sem dregur að sér fjölda ferðamanna árlega og meiri fjölda en nokkurt annað byggðasafn. Þórður hefur verið óþreytandi við björgun íslensks menningararfs á starfstíma sínum.

„Hann tekur á móti ferðamönnum á persónulegan hátt, spilar á orgel og hrífur fólk með frásögnum sínum. Hann hefur verið ötull í útgáfumálum, skrifað um þjóðhætti og um minja- og safnamál. Hann var hvatamaður að fornleifarannsóknum, t.d. á Stóru-Borg svo fátt eitt sé talið. Safnið á Skógum er einstakt á landsvísu, þar er byggðasafn, samgönguminjasafn og kirkja sem Þórður lét reisa á staðnum. Þórður er enn starfandi 92ja ára gamall, fæddur 1921,“ segir í tilkynningu.

Landstólpinn er veittur einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum eða sveitarfélögum sem vakið hafa jákvæða athygli á landsbyggðinni, t.d. með tilteknu verkefni eða starfsemi, umfjöllun eða öðru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert