Viðurkennir Blæ sem kvenmannsnafn

Blær sigraði í dómsmáli sem hún höfðaði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Blær sigraði í dómsmáli sem hún höfðaði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Mannanafnanefnd hefur samþykkt að skrá kvenmannsnafnið Blæ í mannanafnaskrá. Þetta er gert í kjölfar dóms sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í vetur. Nefndin hafði áður hafnað því að skrá nafnið sem kvenmannsnafn.

Það var Þjóðskrá Íslands sem sendi mannanafnanefnd formlegt erindi eftir að dómurinn féll. Þjóðskrá óskar eftir upplýsingum frá mannanafnanefnd um hvort kvenmannsnafnið Blær verði skráð á mannanafnaskrá, eða hvort stofnunin þurfi, berist henni beiðni um skráningu nafnsins Blær fyrir kvenmann, að beina erindi þar að lútandi til mannanafnanefndar.

„Stjórnsýsla sætir endurskoðun dómstóla, eftir almennum reglum. Forsendur þær sem byggt er á í fyrirliggjandi dómi og leiða til þess að viðurkenndur er réttur stefnanda til að bera kvenmannsnafnið Blær sem eiginnafn eru að öllu leyti þær sömu og fullnægja þarf samkvæmt mannanafnalögum svo að nafnið fari á mannanafnaskrá sem eiginnafn konu. Með hliðsjón af þessari dómsniðurstöðu er því rétt að eiginnafnið Blær verði fært á mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn. Sú skráning haggar ekki stöðu nafnsins sem karlmannsnafn í sömu skrá,“ segir í niðurstöðu mannanafnanefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert