Þurfum að uppfylla Maastricht-skilyrðin

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist telja að það sé hægt að ná samstöðu milli stjórnmálaflokkanna í gjaldmiðlamálum. Það liggi fyrir að við munum nota krónuna næstu árin. Hann leggur hins vegar áherslu á að við fylgjum efnahagsstefnu sem miðar að því að við uppfyllum Maastricht-skilyrðin.

Maastricht-skilyrðin setja ríkjum markmið í verðlagsmálum, ríkisfjármálum, gengismálum og varðandi vexti.

Sigmundur Davíð sagði á fundi sem ASÍ stóð fyrir í kvöld um efnahags- og atvinnumál, að hvaða afstöðu sem menn hefðu til evrunnar og inngöngu í Evrópusambandið lægi fyrir að við myndum notast við krónu hér næstu árin. Um þetta væri enginn ágreiningur og því gætu flokkarnir náð saman um stefnu í gjaldmiðlamálum næstu árin og eins að við þyrftum að uppfylla Maastricht-skilyrðin.

Sigmundur sagði að hugmyndir um að tengja krónuna strax við evru væru fráleitar, sérstaklega ef við gerðum það með skuldsettan gjaldeyrisforða.

„Þetta sveiflu- og klíkusamfélag væri andstyggilegt“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, minnti á að við hrunið hefði Ísland misst efnahagslegt sjálfstæði. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði komið og búið til efnahagsstefnu fyrir Ísland. Okkur hefði hins vegar ekki tekst vel að marka stefnu til framtíðar eftir að AGS sleppti höndunum af Íslandi. Guðmundur sagði mikilvægt fyrir okkur að læra af öðrum þjóðum og taka mark á skýrslum sem sérfræðingar legðu fram, eins og t.d. skýrslu Seðlabankans í gjaldmiðlamálum.

Guðmundur sagði að sveiflur á gengi krónunnar væru erfiðar fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Þegar gengi krónunnar lækkaði á síðasta ári hefði það gerst vegna þess að stórir aðilar voru að safna gjaldeyri til að geta staðið skil á erlendum lánum. Þetta hefði leitt til verðbólgu og til þess að skuldir heimilanna hækkuðu. Nú væru menn ekki lengur að safna að sér gjaldeyri og gengi krónunnar hefði hækkað. Afleiðingin væri sú að bílaumboðin væru að auglýsa lækkað verð á bílum. Einhverjir væru að hagnast á þessu. Guðmundur sagði að þetta sveiflu- og klíkusamfélag væri andstyggilegt.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi efnahagsstefnu Framsóknarflokksins. Hann sagði athyglisvert að þegar Sigmundur Davíð væri spurður um hvort ekkert ætti að gera fyrir leigjendur þá vísaði hann þeim á að fara í mál og segði að þeir sem skulduðu ættu einir rétt á að fá það sem hugsanlega kæmi út úr samningaviðræðum við vogunarsjóðina. Árni Páll minnti á að ekkert lægi fyrir um það að dómstólar myndu dæma verðtryggð lán ólögleg og því væri ábyrgðarleysi af Sigmundi Davíð að gefa til kynna að þeir sem greiddu verðtryggða leigu gætu unnið dómsmál.

Pétur H. Blöndal alþingismaður, sem mætti á fundinn í forföllum Bjarna Benediktssonar, sagði að leigjendur væru um 25% heimila. Þeir sem væru að bjóða lausnir í húsnæðismálum ætluðu ekkert að gera fyrir þennan hóp.

Pétur sagði að það ríkti agaleysi í ríkisfjármálum. Núverandi ríkisstjórn hefði valið þá leið að reyna að skattleggja sig út úr vandanum. Þetta hefði verið mistök og það væri hægt að örva efnahagslífið með því að lækka skatta. Hann nefndi stimpilgjaldið sem dæmi um skatt sem stuðlaði að frosti á fasteignamarkaði.

Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson. mbl.is
Pétur H. Blöndal
Pétur H. Blöndal mbl.is
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert