14% af 15 ára stúlkum á Íslandi á pillunni

Á síðasta ári var getnaðarvarnarpillunni ávísað til rúmlega 400 14 …
Á síðasta ári var getnaðarvarnarpillunni ávísað til rúmlega 400 14 og 15 ára gamalla stúlkna hér á landi. Sigurður Jökull

Á síðasta ári var getnaðarvarnarpillunni ávísað til rúmlega 400 14 og 15 ára gamalla stúlkna hér á landi. Um 5% allra 14 ára stúlkna á landinu og 14% allra 15 ára stúlkna tóku pilluna í fyrra. Í einhverjum þessara tilvika er pillunni ávísað vegna blæðingaverkja, en ekki til að fyrirbyggja þungun.

Þetta kemur fram í tölum úr lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis. Þar kemur meðal annars fram að í fyrra fengu 95 14 ára stúlkur getnaðarvarnarpillunni ávísað frá lækni og fjöldi þeirra 15 ára stúlkna sem fengu pilluna var 308. Þegar skoðuð eru gögn undanfarinna tíu ára virðist fjöldinn hafa staðið nokkuð í stað.

„Þungunum unglingsstúlkna hefur fækkað og í því ljósi er jákvætt, að ungar stúlkur séu að taka getnaðarvarnarpilluna“, segir Hulda Hjartardóttir kvensjúkdómalæknir. „Auðvitað er betra að hjálpa þeim með getnaðarvarnir og hjálpa þeim til að sýna ábyrgð í kynlífi, séu þær á annað borð farnar að stunda það.”

Pillan ekki alltaf tekin sem getnaðarvörn

Hulda segir að í einhverjum þessara tilvika séu stúlkurnar líklega að taka pilluna vegna verkja eða annarra kvilla í tengslum við blæðingar. „Á ákveðnum aldri geta stúlkur lent í blæðingatruflunum; það blæðir mjög mikið eða óreglulega, þetta getur valdið þeim ýmsum erfiðleikum og þær geta misst nokkra daga úr skóla í hverjum mánuði vegna þessa. Þannig að það, að fá pilluna, þarf ekki endilega að vera merki um að viðkomandi sé farin að lifa kynlífi.”

Hvaða áhrif hefur það á svona ungar stúlkur að taka hormóna? „Það er ekki álitið að það hafi áhrif. Þær hafa væntanlega tekið út sinn líkamlega þroska að mestu fyrst þær eru byrjaðar á blæðingum. En í flestum tilvikum byrja þær á því að taka vægustu pillurnar.”

Oftast með vitneskju foreldranna

Hulda hefur ávísað getnaðarvarnarpillunni til allnokkurra grunnskólastúlkna, en segir að algengast sé að unglingsstúlkur, sem hafi hug á að fara á pilluna, hafi samband við sinn heimilislækni. „Þær hafa komið til mín mjög ungar og það er oftast, en ekki alltaf, með vitneskju foreldranna. Svo eru þær stundum í fylgd með mæðrum sínum. En það er ekkert sem bannar það að ávísa getnaðarvörnum til unglinga án vitneskju foreldranna.”

Viðurkenna staðreyndir

Samkvæmt almennum hegningarlögum er refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Skýtur það þá ekki skökku við að ávísa getnaðarvarnarpillum til stúlkna sem eru undir þeim aldri? „Það er ekki talið refsivert þegar sá sem er yngri en 15 ára stundar kynlíf með einstaklingi undir 15 ára aldri. Ég held að flestir læknar hafi tekið þá stefnu að stinga ekki höfðinu í sandinn, heldur viðurkenna staðreyndir og hjálpa stúlkunum að koma í veg fyrir alvarlegustu afleiðingarnar, sem eru að þær verða ófrískar.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert