Fimmtíu ár frá bréfi Martin Luther King

Martin Luther King
Martin Luther King

Bréf Martins Luthers Kings, Bréf úr Birmingham-fangelsi, verður lesið upp í Borgarskjalasafni Reykjavíkur á þriðjudag í tilefni þess að fimmtíu ár eru liðin frá því baráttumaðurinn frægi byrjaði að rita bréfið.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur, í samvinnu við Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi, mun taka þátt í alþjóðlegum viðburði á vegum skjalasafnsins í Birmingham í Alabama. Auk upplestursins verður farið yfir lífshlaup Martin Luther King Jr.

Bréfið verður lesið víða um heim þennan dag til að minnast Martin Luther King Jr. og baráttunnar fyrir mannréttindum blökkumanna í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum frá bandaríska sendiráðinu.

Bréfið var svar við yfirlýsingu átta hvítra presta frá Alabama um réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum þar sem þeir segja að baráttan eigi eingöngu að fara fram fyrir dómstólum, ekki á götum úti.

Í svari sínu leggur Martin Luther King Jr. hugmyndafræðilegan grunn fyrir þá friðsamlegu réttindabaráttu sem hann stóð fyrir og útskýrir af hverju almenn mótmæli séu nauðsynleg. Bréfið markaði þáttaskil í baráttunni og er þekkt fyrir einstaka rökfestu Kings og er einn af þekktari textum sem ritaðir hafa verið á enska tungu.

 Luis Arreaga sendiherra Bandaríkjanna mun fjalla um líf og störf Martin Luther King. Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur talar um sína sýn á mannréttindabaráttu í dag. Sendiherra Bandaríkjanna, Jón Gnarr og Anna Pála Sverrisdóttir formaður Samtakanna '78 munu svo lesa hluta úr bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert