Lýsa yfir áhyggjum af loftgæðum

Við Hellisheiðarvirkjun.
Við Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Golli

Bæjarráð Kópavogs lýsti á fundi sínum í gær yfir áhyggjum af loftgæðum vegna Hellisheiðarvirkjunar. Er það vegna þess að styrkur brennisteinsvetnis á lóð leikskóla Yls og Waldorfsskóla í Lækjarbotnum fór frá 18. september 2012 til 31. janúar 2013 ítrekað yfir tilkynningarmörk eins og þau verða frá og með 1. júlí 2014.

Eins og kom hefur fram á mbl.is gaf heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis út skýrslu í mars um mælingar á brennisteinsvetni í Kópavogi. Í niðurstöðu heilbrigðisnefndarinnar segir að vaxandi styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu sé áhyggjuefni, en langtíma áhrif lágs styrks brennisteinsvetnis á heilsufar hefur lítið verið rannsakað.

„Skólabyggðin í Lækjarbotnum er næsta þéttbýlismyndunin við [Hellisheiðarvirkjun] og er mjög viðkvæm fyrir mengun vegna eðli sinnar starfsemi,“ segir í skýrslunni en en þó svo styrkur brennisteinsvetnis hafi farið ítrekað yfir tilkynningamörk eins og þau verða 2014 fóru þau aldrei yfir mörkin eins og þau eru í dag, en mörkin eru þrisvar sinnum hærri en þau verða.

Bæjarráð Kópavogs samþykkti að fela bæjarstjóra að útbúa drög að erindi til Orkuveitu Reykjavíkur vegna málsins og leggja þau fyrir bæjarráð til samþykktar.

Ítrekað yfir mörk fyrir 2014

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert