Þrír á dag úr þjóðkirkjunni

Jakob Fannar Sigurðsson

Tæplega 300 Íslendingar, eða u.þ.b. þrír á dag, skráðu sig úr þjóðkirkjunni á fyrstu þremur mánuðum ársins.  Á sama tíma gengu rúmlega 60 í þjóðkirkjuna. Sóknarbörnum í fríkirkjum fjölgaði á sama tíma og sömuleiðis í önnur skráð trúfélög. Þá fjölgaði þeim sem standa utan trúfélaga.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tölum sem Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman um breytingar á trúfélagaaðild.

Þar má meðal annars sjá að á þessu tiltekna tímabili skráðu 297 sig úr Þjóðkirkjunni og 61 skráði sig í hana og fækkaði því þar um 236. Nokkuð fleiri karlar en konur fóru úr Þjóðkirkjunni; þeir voru 177 en konurnar 120.  Flestir þeirra sem sögðu sig úr Þjóðkirkjunni eru fæddir á árunum 1981 - 1995. 

Á þessu tímabili gengu 59 fleiri í fríkirkjur en úr þeim. Með fríkirkjum er átt við Fríkirkjurnar í Reykjavík og Hafnarfirði og Óháða söfnuðinn í Reykjavík. Þeim sem skráðu sig í önnur skráð trúfélög fjölgaði um sjö.

Þeim sem kjósa að standa utan trúfélaga fjölgaði um 170 á þessu tímabili og koma flestir þeirra úr þjóðkirkjunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert