ÖBÍ bauð upp á ör-pylsu og kók-lögg

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, gaf öllum fulltrúum framboðanna ör-pylsu og …
Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, gaf öllum fulltrúum framboðanna ör-pylsu og lögg af kóka kóla. mynd/Sigurður Sverrisson

Fulltrúar þeirra framboða sem bjóða fram til Alþingis fengu ör-pylsur og lögg af Coca-Cola er þeir mættu á baráttufund Öryrkjabandalags Íslands sem fór fram í dag. Athöfnin var táknræn og til marks um hvernig búið er að skerða kjör öryrkja á síðustu fjórum árum miðað við launa- og neysluvísutölu.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, sagði í ávarpinu sínu í dag, að fyrsta verk nýrrar svokallaðrar velferðarstjórnar sumarið 2009 hefði verið að skerða bætur öryrkja með sögulegum hætti.

„Laun öryrkja voru þarna lækkuð með 3-4 daga fyrirvara,“ sagði hann í erindi sínu.

Í ræðu sinni fór Guðmundur yfir áherslur í málflutningi Öryrkjabandalagsins og nauðsyn þess að lögfesta Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann rakti einnig hvernig meðaltekjur öryrkja fyrir skatta hefðu aðeins hækkað um 4,7% sl. fjögur ár á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um 23,5% og vísitala neysluverðs um 20,5%, að því er segir í tilkynningu.

„Í aðdraganda fundarins vann kjarahópur ÖBÍ fimm lykilspurningar sem framboðunum gafst kostur á að svara á fundinum og skriflega. Jafnframt var nokkrum dögum fyrir fund auglýst eftir spurningum þar sem fólki var gefinn kostur á að leggja spurningar fyrir framboðin sem síðan voru dregnar saman í fjóra spurningar sem lagðar voru fyrir  á fundinum. Framboðin fengu síðan tvö stutt tækifæri hvert á fundinum til að svara til um hvernig þau sæju fyrir sér að rétta mætti hlut öryrkja á komandi kjörtímabili. Mörg þeirra ummæla sem þar féllu auka bjartsýni um að kjörin verði leiðrétt en næstu mánuðir skera úr um hvort saman fari loforð og efndir,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert