Flugvöllurinn of frekur

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kröfur flugmálayfirvalda um fellingu elsta hluta skógarins í Öskjuhlíðinni og umfangsmikil lendingarljós á Ægisíðunni færa Reykvíkingum heim sanninn um að flugvöllurinn er of frekur í umhverfi sínu í miðborg Reykjavíkur. Þetta segja tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulagsráði Reykjavíkur.

Á fundi skipulagsráðs fyrir helgi var rætt um fyrirspurn Flugfélags Íslands varðandi endurbætur og viðbyggingu flugstöðvar Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli. Á fundinum kom fram að einnig væri lagt til að unnið yrði að því að bæta öryggismál á flugvellinum með tilliti til lendingarljósa og trjágróðurs í Öskjuhlíð.

Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Vinstri grænna segir að nást þurfi ásættanleg niðurstaða fyrir Isavia og fyrir Reykjavíkurborg. „Ráðið vill þó árétta að umhverfis flugvöllinn eru mikilvæg útvistarsvæði sem brýnt er að vernda.“

Gísli Marteinn Baldursson og Hildur Sverrisdóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulagsráði, létu þá bóka að flugvöllurinn í Vatnsmýri uppfyllti ekki tilmæli Alþjóða flugmálastofnunarinnar um öryggismál. Gildi það til dæmis um öryggissvæði við flugbrautarenda, öryggissvæði frá miðlínu og um aðflugsljós og hindrunarfleti. „Þetta hafa flugmálayfirvöld verið treg til að viðurkenna.“

Þá segja þau að borgaryfirvöld eigi að hafna kröfum um fellingu elsta hluta skógarins í Öskjuhlíð og uppsetningu lendingarljósa á Ægisíðu. „Borgaryfirvöld ættu að hafna slíkum kröfum, rétt eins og þau höfnuðu stórum ljósamöstrum í Hljómskálagarðinum þegar flugvallayfirvöld reyndu að fá þau í gegn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert