Meirihluti á móti frekari álverum

Álverið í Straumsvík. Mynd úr safni.
Álverið í Straumsvík. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

43,6% aðspurðra lýsa sig andvíg Bjarnarflagsvirkjun í nýrri könnun Capacent Gallup sem kynnt var á aðalfundi Landverndar í gær. 30,5% svarenda eru hlynnt virkjuninni. Í sömu könnun var einnig spurt um afstöðu fólks til frekari álvera og lýstu 51,3% svarenda sig andvíg frekari álversframkvæmdum.

Í könnuninni kemur fram að 30,5% svarenda hafi lýst sig hlynnt Bjarnarflagsvirkjun og 25,9% séu hvorki hlynnt né andvíg könnuninni. Þegar horft er til þeirra svarenda sem tóku ákveðna afstöðu í könnuninni eru 58,8% andvíg og 41,2% hlynnt virkjuninni. 

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, segist ekki hafa búist við svona litlum stuðningi við Bjarnarflagsvirkjun í ljósi þess hversu stutt sé síðan áform Landsvirkjunar komust í almannaumræðu. Hafi það komið honum nokkuð á óvart hversu mikil andstaða hafi skapast við áformin á skömmum tíma.

Telur hann að þáttur Mývatns í huga þjóðarinnar spili þar inn í. „Mývatn skipar ákveðinn sess í hugum fólks. Þetta er einstök náttúruperla og lífríkið einstakt á heimsvísu þannig að þetta eru ótrúlega merkileg náttúruverðmæti sem við höfum þarna í höndunum og ætti þess vegna ekki að koma á óvart að almenningur vilji fara varlega þegar kemur að þessu svæði,“ segir Guðmundur Hörður. 

Guðmundur Hörður segist telja að nýlegar fréttir um lífríkið í Lagarfljóti hafi haft áhrif á niðurstöðuna. „Já, ég hugsa það nú að þessar fréttir sem komu fyrir ekki löngu um að lífið í Lagarfljóti væri að hverfa að það hefði haft áhrif á almenningsálitið, að fólk vilji ekki endurtaka þann leik við Mývatn. Það sé komið nóg af náttúrufórnum fyrir stóriðju í landinu.“

Meiri andstaða við álver en Bjarnarflagsvirkjun

Í könnuninni var fólk jafnframt spurt hversu hlynnt eða andvígt það væri því að fleiri álver yrðu reist hér á landi til viðbótar við þau sem þegar eru starfandi í landinu. 51,3% svarenda lýstu sig andvíg því að fleiri álver yrðu reist en 30,9% voru hlynnt því. 17,7% svarenda lýstu sig hvorki hlynnt né andvíg frekari álverum. 

Guðmundur Hörður segir niðurstöðuna sýna fram á það að fólk vilji aðrar lausnir en álversframkvæmdir. Hugsanlega sé fólk farið að átta sig á því að efnahagsleg áhrif álvera séu ekki bara jákvæð heldur geti þau einnig verið neikvæð. Þá sé fólk farið að átta sig á því að virkjunarkostir séu orðnir þröngir til þess að rúma eitt álver til viðbótar við þau sem þegar eru fyrir í landinu. 

Könnun Capacent Gallup var netkönnun sem var gerð fyrir Landvernd dagana 27. mars til 8. apríl. Í úrtakinu voru 1.450 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Fjöldi svarenda var 862 og svarhlutfallið var því 59,4 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert