Sést vart milli húsa á Siglufirði

Hríð og skafrenningur er á Norður- og Austurlandi. Á Siglufirði og Ólafsfirði er þungfært innanbæjar og stundum hefur ekki sést á milli húsa. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í gær og í dag til að aðstoða ökumenn.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að hríð og skafrenningur sé frá Þverárfjalli austur um á Breiðdalsheiði.  Á Austfjörðum og með norðausturströndinni nær að hlána í byggð í dag, en þar eykst ofanhríðin á fjallvegum umtalsvert í nótt. Snjókoma er á  norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum, sem fer þó heldur minnkandi í kvöld.

„Hins vegar verður dimmur skafrenningur og kóf víða um landið norðvestanvert óháð því hvort snjóar eða ekki. Gera má ráð fyrir vindhviðum um 30-35 m/s fram á nótt og sums staðar til morguns s.s. í Staðarsveit, undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi, við Lómagnúp og í Öræfasveit.  Sunnanlands verður að auki leiðinda sandfok hér og þar.“

Ekki mjög vorlegt á Ólafsfirði og Siglufirði

 „Við hefðum viljað að snjórinn væri að fara en ekki að koma,“ segir Sigurbjörn Þorgeirsson, lögreglumaður á Ólafsfirði. Hann segir að það sé ekki mjög vorlegt á Ólafsfirði og Siglufirði. Það sé búið að snjóa mjög mikið.

Sigurbjörn þurfti að kalla út björgunarsveitir í gærkvöldi og í dag til að aðstoða ökumenn sem hafa setið fastir innanbæjar og einnig utan við bæinn. Seint í gærkvöldi þurfti t.d. að aðstoða tónlistarmenn sem voru að koma af balli, en þeir festu bíl sinn við Strákagöng.

Ökumenn lentu í vandræðum á Öxnadalsheiði í morgun. Lokaðist vegurinn og festust nokkur ökutæki á heiðinni. Þurfti að senda tvo björgunarsveitarbíla út til þess að losa ökutækin.

Steingrímsfjarðarheiði er ófær

Á Vestfjörðum er ófært á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, en snjóþekja og skafrenningur á  Innstrandavegi.  Þæfingur er í Ísafjarðardjúpi en þæfingur og stórhríð á Klettshálsi. Hálkublettir og skafrenningur eru á Hálfdáni og á Kleifaheiði.

Á Norðurlandi vestra er ófært og stórhríð á Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi en þæfingsfærð og stórhríð á Öxnadalsheiði. Þungfært og óveður er á Skagastrandarvegi. Annars eru hálkublettir og skafrenningur á flestum leiðum.

Norðaustanlands er ófært og stórhríð  í Héðinsfirði, á Hólaheiði, Hófaskarði, Sandvíkurheiði og  einnig á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.  Þæfingur og skafrenningur er í Ólafsfjarðarmúla og á Grenivíkurvegi en annars er hálka, snjóþekja og skafrenningur mjög víða. Ófært er á Dettifossvegi.

Það er þungfært og skafrenningur á Fjarðarheiði en hálkublettir á Fagradal og þæfingur á Oddsskarði, Vopnafjarðarheiði og Jökuldal. Ófært er á  Vatnsskarði eystra en annars eru hálkublettir nokkuð víða á  Austurlandi.  Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert