Þjóðkirkjan safnar fyrir línuhraðli

Agnes M. Sigurðardóttir biskup.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Rósa Braga

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, greindi frá því við slit prestastefnu í dag að ákveðið hefði verið að safna fyrir línuhraðli á Landspítalanum. Agnes biskup hvetur presta, djákna, sóknarnefndarfólk og starfsfólk kirkjunnar til að setja söfnunina á dagskrá í hverjum söfnuði kirkjunnar.

Í anda Jesús Krists

„Ég hafði frumkvæði að því að tala við forstjóra Landspítalans um þetta mál,“ segir Agnes. Hún heldur að þetta sé í fyrsta skipti sem þjóðkirkjan hér á landi stendur fyrir söfnum með þessum hætti en bendir á að Hjálparstarf kirkjunnar hafi staðið fyrir fjölda safnana. „En þær safnanir eru öðruvísi. Þjóðkirkjan hefur starfstöðvar um allt land og því er þetta á landsvísu,“ segir Agnes. 

Hún segir söfnunin sé í anda Jesús Krists sem lét sig varða málefni þeirra sem minna mega sín. „Við vildum leggja okkar að mörkum svo þeir sem veikir eru fái sem besta þjónustu,“ segir Agnes.

 Aðspurð segir hún ekki áform uppi um fleiri safnanir en útilokar ekki að Þjóðkirkjan muni í auknu mæli beita sér með þessum hætti. 


Brýnt að endurnýja línuhraðal

Í frétttilkynningu segir að brýnt sé að endurnýja þennan tækjabunað og mun nýr línuhraðall gefa kost á auknum möguleikum í meðferð krabbameins sem kemur fjölda sjúklinga til góða.  Fyrir eru í notkun tvö slík tæki á landinu en þau eru bæði orðin gömul og annað nær úrelt. Það er mat sérfræðinga að nauðsynlegt sé að endurnýja þennan mikilvæga tækjabúnað. Úreldur og bilanagjarn tækjabúnaður er ekki bara ógn við heilbrigði sjúklinga heldur líka uppspretta sorgar og margskonar sársauka. 

Safnað verði um allt land 
Agnes biskup hvetur presta, djákna, sóknarnefndarfólk og starfsfólk kirkjunnar til að setja söfnun til kaupa á Línuhraðli fyrir Landspítalann á dagskrá í hverjum söfnuði kirkjunnar og leyfa söfnuninni að hafa áhrif á safnaðarstarfið í haust. Í bréfi sem hún skrifar til presta þjóðkirkjunnar segir hún meðal annars:

„Þjóðkirkjan starfar um allt land. Ég veit að það býr mikil hugmyndaauðgi og mannauður í starfsfólki hennar. Í sameiningu áorkum við miklu. Ég vil hvetja ykkur til að  leita samstarfs við einstaklinga, félagasamtök, önnur trúfélög og stofnanir á hverjum stað eða fara þær leiðir sem þið teljið bestar til að Landspítalinn nái því markmiði sínu að fjármagna kaup á nýjum Línuhraðli. “

Allt söfnunarfé sem lagt verður inn á eftirfarandi reikning mun nýtast til kaupa á Línuhraðlinum fyrir Landspítalann og mun Agnes biskup afhenda söfnunarféð í nóvember. Söfnunarreikningurinn er 0301-26-050082, kt. 460169-6909.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert