Loðin svör við loðnum spurningum

Guðni Th. Jóhannesson á fundi í Lögbergi í dag.
Guðni Th. Jóhannesson á fundi í Lögbergi í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Ef mál þróast eins og ég held verður erfitt að mynda nýja ríkisstjórn,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, þegar hann ræddi við áhugamenn um stjórnmál í Lögbergi í dag. Samt var niðurstaða hans sú, að eins og mál stæðu nú væri lang líklegast að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur muni mynda næstu stjórn og að stjórnarmyndunarviðræður yrðu ekki langar.

Fyrirlestur Guðna var á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og bar yfirskriftina: Stjórnarkreppan mikla. Hvers vegna munu stjórnarmyndunarviðræður ganga illa eftir alþingiskosningarnar í apríl 2013? 

Guðni sagði „kýrskýrt“, eins og hann orðaði það, að núverandi ríkisstjórn muni falla og þurfi því að biðjast lausnar eftir kosningarnar.  Síðusu kannanir bentu líka til þess að eini möguleikinn á tveggja flokka stjórn væri samstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og langlíklegast væri að látið yrði reyna á það fyrst hvort af því samstarfi gæti orðið.

En þá standi menn frammi fyrir þeirri spurningu hver ætti fyrstur að hreppa hnossið, stjórnarmyndunarumboðið.  Væri það leiðtogi stærsta flokksins, eða sigurvegari kosninganna, sem væri ekki endilega sá sem fengi mest fylgi? Sagði Guðni, að það hefði oft gerst í lýðveldissögunni, að leiðtogi næst stærsta flokksins fékk stjórnarmyndunarumboðið fyrstur.

Hann velti einnig fyrir sér hlutverki forseta Íslands í stjórnarmyndunarviðræðum en sagði, að lang líklegast væri, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndi ríkisstjórn og þá yrði hlutverk forsetans ekki mikið. „Væntanlega mun þetta ganga hratt fyrir sig þrátt fyrir yfirskrift þessa fyrirlestrar,“ sagði Guðni og glotti.

„Nú hefur Guðni sagt bæði, að stjórnarmyndun muni ganga illa og ganga vel,“ sagði Steinunn Stefánsdóttir, fundarstjóri, þegar hún  sleit fundinum eftir nokkrar spurn
ingar úr sal. Og Guðni klykkti út með því að lýsa því yfir að hann hefði gefið loðin svör við loðnum spurningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert