Harðindavetur og heyskortur

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við erum búnir að eiga við snjó síðan 10. september eða í um átta mánuði. Það er dálítið langur tími,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grýtubakka 1 og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

Snjór og klaki er víða yfir túnum. Þórarinn hafði heyrt að slæmt ástand væri í Fljótunum og í Skagafirði utanverðum og allt á kafi í snjó. Í Eyjafirði er ástandið verst í firðinum utanverðum, bæði að austan og vestan. Gríðarmikill snjór er í Svarfaðardal og á Árskógsströnd. Feiknaleg svellalög eru í Hörgárdal. Mjög mikill snjór er í Fnjóskadal og öll Suður-Þingeyjarsýsla að segja má undir snjó, nema Tjörnesið. Einnig er snjór og svellalög í kringum Egilsstaði á Héraði og á Jökuldal.

Margir bændur eru orðnir mjög heylitlir. Sumir eiga hey og hafa miðlað öðrum. Hey hefur verið flutt sunnan úr Rangárvallasýslu og vestan úr Borgarfirði og Dölum. „Við höfum líka gefið kögglað bygg og kjarnfóður,“ sagði Þórarinn. Hann sagði þetta fóður vissulega vera dýrt en féð fóðrist virkilega vel á því og með þessu geti menn sparað heyið.

„Þetta eru náttúruhamfarir“

Allar girðingar eru á kafi á stórum svæðum og vafalaust margar ónýtar. Girðingar fóru mjög illa í óveðrinu 10. september sl. Svo fóru þær mjög illa þegar gerði mikinn byl í byrjun nóvember. Girðingar sem komnar eru undan undan snjó líta illa út.

„Það þarf að fara í mikla girðingavinnu. Ég veit bara ekki hvernig við förum að því um leið og við stöndum í sauðburði, en við leysum það einhvern veginn,“ sagði Þórarinn.

Margir bændur á þessum svæðum misstu fé í áhlaupinu í september. „Sums staðar var minni ásetningur vegna þess að menn sáu fram á að eiga ekki fóður. Þeir sem fóru verst út úr óveðrinu í haust og misstu margt fé eru þeir sömu og búa við mestu harðindin nú,“ sagði Þórarinn. „Það er ekkert annað að gera en að berjast áfram. Það hefur aldrei orðið svo mikið myrkur að það birti ekki aftur. Vissulega tekur þetta á en við verðum að styðja hver annan í að komast í gegnum þetta. Þetta eru náttúruhamfarir.“

Veðrið næsta hálfa mánuðinn getur skipt sköpum um framhaldið. „Ef við fáum gott veður í byrjun maí þá gerast hlutirnir hratt. Það myndi bjarga okkur mikið,“ sagði Þórarinn. Sauðburður hefst fyrir alvöru upp úr næstu mánaðamótum. Þórarinn sagði bændur vera farna að huga að því hvað gera eigi við lambféð. Ekki er hægt að setja það út nema snjóinn taki upp. Taki snjóinn upp þá eru girðingar víða ónýtar. En það dugar ekki að leggja árar í bát.

„Við verðum að blása lífi hver í annan og klappa hver öðrum á bakið til að komast í gegnum svona verkefni. Það er ekkert annað í boði hjá okkur,“ sagði Þórarinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert