Leifur Örn í efri grunnbúðum Everest

Jaxuxar sem bera hluta farangs hópsins.
Jaxuxar sem bera hluta farangs hópsins. Leifur Örn

Fjallagarpurinn Leifur Örn Svavarsson er nú staddur í efri grunnbúðum Everest, eða í 6.492 metra hæð. Að sögn Arinbjarnar Haukssonar, starfsmanns Íslenskra fjallaleiðsögumann, ætlaði hópurinn að ganga upp í 7000 metra hæð í dag. Það reyndist ekki hægt, enda töluverður vindur á þessum slóðum.

Leifi líður vel eftir atvikum, en vissulega tekur á að venjast loftinu sem er heldur þynnra þegar komið er upp í þessa miklu hæð. Hann hyggst ganga norðurleiðina á tindinn, fyrstur Íslendinga. Sú leið er ekki aðeins fáfarnari, heldur er hún einnig erfiðari.

Þetta er leiðangur, ekki ferðalag

Þessa dagana stundar hópurinn ýmsar æfingar, leggur línur og æfir sig að fara með þeim. „Það tekur líkamann tíma að venjast, það þarf að vinna sig upp í áföngum,“ segir Arinbjörn. „Þetta er leiðangur, ekki ferðalag,“ sagði Leifur Örn í samtali við Arinbjörn fyrr í dag. Þá var hann á leið inn í tjald, ætlaði að setja á sig skíðagleraugu og lambúshettu og leggja sig.

Kona Leifs tók þátt í ferðalaginu með honum og gekk upp í fyrri grunnbúðirnar. „Sigrún er lögð af stað til Kathmandu og vissulega sakna ég hennar mikið," segir Leifur á bloggsíðu sem haldið er upp vegna göngunnar.

Fleiri Íslendingar á leiðinni á toppinn

Guðmundur St. Maríusson og Geir Gissurarson stefna einnig á fjallið fræga. Hópurinn þeirra er nú kominn í fyrstu búðir, en hann varð áður að dvelja í nokkra daga í grunnbúðunum vegna fannfergis ofar í fjallinu. 

Hópurinn náði í búðirnar í gær, en Guðmundur þurfti þó að snúa við og stefndi á að ná þangað í dag.

Hér er hægt að fylgjast með ferð þeirra Guðmundar og Geirs.

Leifur Örn Svavarsson
Leifur Örn Svavarsson mynd af vef Íslenskra fjallaleiðsögumanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert