Merkjavara saumuð í dauðagildrum

Útlimir verkafólks sjást víða standa út á milli steypuklumpa í …
Útlimir verkafólks sjást víða standa út á milli steypuklumpa í rústum verksmiðjunnar. AFP

Líklegt er að í fataskápum marga Íslendinga megi finna fatnað sem upprunninn er í Bangladess. Þar er þriðja umfangsmesta fataframleiðsla heims enda sjá margar verslunarkeðjur á Vesturlöndum sér hag í því að framleiða vörur sínar ódýrt þar í landi. Má þar nefna H&M, Walmart, GAP, Mango, Primark, Benetton, Calvin Klein og margar fleiri.

Viðskiptamódelið virkar en ekki án fórnarkostnaðar því í verksmiðjunum starfar fólk fyrir lágmarkslaun og oftar en ekki lélegan aðbúnað. Áherslan á öryggi starfsfólks er lítil sem engin enda hafa hundruð manna látið lífið í fataverksmiðjum Bangladess síðustu ár.

„Það sem við sjáum oft gerast er að stórfyrirtæki nota verktaka sem nota undirverktaka, og þannig skapast ákveðin fjarlægð svo fyrirtækin geta firrt sig ábyrgð af undirverktökunum þegar eitthvað gerist,“ segir Torfi Jónsson, verkefnastjóri hjá Íslandsdeild Amnesty International.

Samtökin hafa með ýmsum hætti reynt að þrýsta á um að réttindi verkafólks í Bangladess séu virt en þar eru m.a. dæmi um að mótmæli verkafólks séu barin niður af hörku og að forkólfar verkalýðsfélaga og talsmenn kjarabaráttu verksmiðjustarfsmanna séu pyntaðir í fangelsi og jafnvel hótað lífláti.

Yfir 300 látnir og margra enn saknað

Á miðvikudaginn voru hátt í 3000 manns, m.a. fjölmargar saumakonur, að störfum í Rana Plaza, 8 hæða byggingu í nágrenni höfuðborgarinnar Dhaka þegar húsið hrundi skyndilega, svo hratt að enginn tími gafst til að flýja.

Tala látinna er nú komin yfir 300 og fer enn hækkandi. Í dag hefur um 50 manns verið bjargað á lífi úr rústunum en marga hefur þurft að aflima á sjúkrahúsum Dhaka. Sökum hita og raka í andrúmsloftinu eru lík sem enn liggja grafin í rústunum þegar byrjuð að rotna og er ólyktin sögð stæk. Hundruð þúsunda verkamanna og aðstandenda mótmæltu á götum borgarinnar í dag og beitti lögregla táragasi gegn þeim.

Þetta mun vera mannskæðasta iðnaðarslys í sögu Bangladess, en því miður ekki það eina. Síðustu mánuði hafa orðið a.m.k. tveir mannskæðir eldsvoðar í fataverksmiðjum í landinu þar sem samtals 118 manns létu lífið. Fyrir voru hátt í 500 dauðsföll í fataverksmiðjum á tímabilinu 2006-2010, flest vegna eldsvoða. Eftir þessa viku eru dauðsföllin því orðin um 900 frá árinu 2006.

Innan við 5000 krónur í mánaðarlaun

Það sem allar þessar verksmiðjur eiga sameiginlegt er að þar var lítið sem ekkert gert til að tryggja öryggi fólksins sem þar starfar. Verksmiðjan sem brunnu voru ekki með starfsleyfi frá brunavörnum ríkisins og byggingin sem hrundi á miðvikudag var ekki reist í samræmi við byggingarstaðla.

Yfirvöld í Bangladess virðast ekki ráða við, eða kæra sig um, að tryggja að þeim öryggisstöðlum sem þó eru til staðar sé fylgt. Allur gangur er líka á því hvort vestræn stórfyrirtæki sem nýta sér ódýra framleiðslu í Bangladess láta sig öryggi þeirra sem neðst eru í „fæðukeðjunni“ varða. 

Fataiðnaðurinn í Bangladess hefur skapað um 3,5 milljónir starfa og stendur undir 75% af útflutningstekjum landsins. Hann því afar mikilvægur bangladessku hagkerfi en þar er víða pottur brotinn. Verkafólkið vinnur allt að 60 stunda vinnuviku en hefur að jafnaði um 37 Bandaríkjadali, rúmlega 4.300 krónur, í mánaðarlaun og vinnuaðstæður þeirra eru oft óviðunandi.

Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem sagði að hrun byggingarinnar á miðvikudag undirstriki nauðsyn þess að stjórnvöld í Bangladess, eigendur verksmiðja, kaupendur framleiðslunnar og verkalýðsfélög vinni saman að því að bæta vinnuaðstæður í landinu.

Mörgum fallast hendur og telja ekkert hægt að gera

Íslenskir neytendur spyrja sig kannski hvað þeir geti gert til að tryggja að fötin sem þeir klæðist séu ekki saumuð við óviðunandi aðstæður. Er rétta leiðin að hundsa verslunarkeðjur sem framleiða vörur með þessum hætti? Er þá ekki verið að svipta fólkið í viðkomandi löndum lífsviðurværinu? Er þó ekki skárra að fólk hafi vinnu, þótt launin séu lægri en á Vesturlöndum, heldur en að það þurfi að sjá fyrir sér með betli?

„Margir eru haldnir dálítilli örlagahyggju með þetta, að það sé raunverulega ekkert hægt að gera. Sumum fallast hreinlega hendur gagnvart því að taka upp það verklag að kaupa vörur sem unnar eru við mannsæmandi aðstæður, af því að svo stór hluti af öllum daglegum varningi komi úr hinni áttinni,“ segir Torfi hjá Amnesty.

„En ég held að það sé alveg klárlega vilji hjá mjög mörgum að styðja við góða viðskiptahætti og við verkafólk í öðrum löndum. Margir vilja hafa upplýsingar um þetta, rétt eins og fólk vill hafa upplýsingar um innihald og uppruna matvara, og beina viðskiptum sínum til þeirra sem standa vel að sinni framleiðslu.“

Við hvaða aðstæður verður varan til?

Vandamálið er þó að leiðin frá Bangladess til Íslands er löng og milliliðirnir margir. Gagnsæið er því ekki mikið. Eina leiðin til að vera viss um að kaupa aðeins vörur sem framleiddar eru við mannsæmandi aðstæður er að leita upprunavottunar, t.d. frá alþjóðasamtökunum Fair Trade. Framboð Fair Trade varnings er þó afar takmarkað á Íslandi.

„Fair Trade hefur meðal annars það hlutverk að kanna aðstæður hjá þeim sem eru að framleiða vörur og að fækka milliliðum þannig að leiðin sé sem styst frá framleiðanda til neytanda því þannig er hægt að tryggja að við vitum við hvaða aðstæður varan verður til,“ segir Hafþór Freyr Líndal, einn talsmanna ungliðahreyfingarinnar Breytendur (e. Changemaker), sem beitir sér m.a. fyrir sanngjörnum viðskiptum.

Hafþór segir þó afar fáar vörur á Íslandi hafa fengið Fair Trade vottun, ekki síst í fataverslunum. Hann segir að það eigi alltaf að vera hægt að finna upprunann á t.d. fatnaði en upplýsingar geti verið mjög misvísandi. En hvað geta neytendur þá gert?

Skiptir máli að þrýsta á um breytingar

„Það er að vera gagnrýninn. Því miður er staðan þannig að fólk hugsar lítið sem ekkert um þetta og þar af leiðandi er enginn þrýstingur á framleiðendur að bæta úr þessu. Eina krafan sem við gerum er að fá ódýran fatnað, en það sem við þurfum líka að leggja áherslu á er að við viljum ekki að fólk deyi við að framleiða fötin okkar,“ segir Hafþór.

Stórfyrirtækin sjálf geta ekki fríað sig allri ábyrgð þótt þau vísi fingri á undirverktaka og opinbera eftirlitsaðila í hverju landi fyrir sig. Þau geta hinsvegar sett sér siðferðisstefnu í þessum málum og skuldbinda sig til að fylgja henni. Þannig mun sem dæmi eigandi Calvin Klein hafa skrifað undir viljayfirlýsingu við baráttusamtökin International Labor Rights Forum um að láta sjálfstæða eftirlitsaðila taka út eldvarnaöryggi í öllu húsnæði þar sem framleiddar eru merkjavörur fyrir Calvin Klein í Bangladess.

Hafþór segist þó því miður ekki geta nefnt mörg fyrirtæki sem séu til fyrirmyndar umfram önnur í þessum efnum. „H&M gáfu sig út fyrir að vera ekki að nota þrælabörn í sinni framleiðslu, en svo kom annað í ljós. Mér skilst að þeir séu eitthvað að vinna í sínum málum núna.“ Þannig virðist oft þurfa einhvers konar afhjúpun til að stórfyrirtækjum sé sýnt aðhald.

„Ég get alveg sagt það hreint og beint út að mér finnst sorglegt hvað við látum okkur málið lítið varða. Því persónulega finnst mér óþægilegt til þess að hugsa að ég hafi kannski styrkt þessa verksmiðju sem hrundi.“

Ung bangladessk kona heldur á lofti mynd af tvíburasystur sinni …
Ung bangladessk kona heldur á lofti mynd af tvíburasystur sinni sem enn var talin grafin í rústunum 48 tímum eftir að byggingin hrundi. AFP
Upp úr sauð milli reiðra aðstandenda og her- og lögreglumanna …
Upp úr sauð milli reiðra aðstandenda og her- og lögreglumanna sem beittu táragasi gegn fólkinu við húsarústirnar í dag. AFP
Björgunarfólk og sjálfboðaliðar grafa í húsarústunum og örvæntingarfullir aðstandendur leita …
Björgunarfólk og sjálfboðaliðar grafa í húsarústunum og örvæntingarfullir aðstandendur leita ástvina sinna. AFP
Kona sýnir mynd af tengdadóttur sinni sem talið er að …
Kona sýnir mynd af tengdadóttur sinni sem talið er að hafi kramist undir húsarústunum. AFP
Um 50 manns hefur verið bjargað á lífi úr rústunum …
Um 50 manns hefur verið bjargað á lífi úr rústunum í dag. Enn er margra saknað. AFP
Bangladesskur maður leitar að systur sinni innan um lík verksmiðjustarfsfólks.
Bangladesskur maður leitar að systur sinni innan um lík verksmiðjustarfsfólks. AFP
Í San Francisco krafðist hópur fólks þess í dag að …
Í San Francisco krafðist hópur fólks þess í dag að verslunarkeðjan GAP bæti vinnuaðstæður þeirra sem saumi GAP fatnað í Bangladess. AFP
Táknræn mótmæli fyrir utan verslun GAP í San Francisco. Mótmælendur …
Táknræn mótmæli fyrir utan verslun GAP í San Francisco. Mótmælendur skora á bæði verslunarkeðjuna og neytendur að greiða ögn hærra verð fyrir að bjarga mannslífum í Bangladess. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert