Sigríður hvorki rekin né veitt áminning

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. Rósa Braga

Biskup Íslands mun ekki verða við þeirri kröfu Gunnars Þorsteinssonar, Gunnars í Krossinum, að víkja Sigríði Guðmarsdóttur, sóknarpresti í Grafarholti í Reykjavík, úr starfi eða veita henni áminningu vegna bloggskrifa hennar um málefni Gunnars. 

Gunnar krafðist þess að Sigríði yrði vikið úr starfi og að henni yrði ekki veitt sambærilegt starf á vegum kirkjunnar. Yrði ekki fallist á það krafðist hann að henni yrði veitt áminning. Málið snýst um skrif Sigríðar á bloggsíðu hennar þar sem hún segist hafa valið að trúa konunum sem segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi Gunnars og segir það vera grundvallarrétt í lýðfrjálsu landi að þau, sem telja sig hafa orðið fyrir kynferðisbrotum, fái að segja sögu sína opinberlega án ógnunar.

Gunnar sendi bréf til Biskupsstofu, þar sem segir meðal annars: „Þegar kirkjunnar þjónar fjalla um umdeild mál, eins og það sem hér um ræðir, verður að gera ríkar kröfur til þess að hlutlægni sé gætt og þeirri grundvallarreglu réttarríkisins sé framfylgt að menn teljist saklausir uns sekt er sönnuð með dómi.“

Biskup fundaði með Sigríði

Biskup Íslands átti fund með Sigríði eftir að krafa Gunnars barst, þar var farið yfir málið og henni kynnt efni kröfunnar. „Það eru þau vinnubrögð sem eru viðhöfð í svona málum,“ segir Árni Svanur Daníelsson, verkefnastjóri hjá Biskupsstofu.

„Eftir að við fengum bréf Gunnars fólum við lögmanni okkar að fara yfir málið. Hann svaraði síðan lögmanni Gunnars í bréfi sem var sent 19. apríl og þar segir: Að athuguðu máli mun biskup Íslands ekki verða við kröfum umbjóðanda þíns um beitingu þeirra agaviðurlaga sem gerð er krafa um. Að mati biskups eru ekki lagaskilyrði til að verða við kröfunum,“ segir Árni Svanur.

Hann segir enn engin viðbrögð hafa borist frá Gunnari eða lögmanni hans. „Við lítum svo á að málinu sé lokið af okkar hálfu.“

Frétt mbl.is: Gunnar krefst brottvikningar Sigríðar

Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholti.
Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholti. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
Gunnar Þorsteinsson.
Gunnar Þorsteinsson. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert