Játar að hafa kveikt í herberginu

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar

Aðalmeðferð í máli ungs manns sem er ákærður fyrir að hafa kveikt í herbergi sínu á Fit Hostel í Reykjanesbæ í febrúar sl. fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara hefur maðurinn játað sök.

Ákæran á hendur manninum er í tveimur liðum. Í þeim fyrri er hann sakaður um að hafa lagt eld að rúmi sínu með kveikjara og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu. Fram kemur að maðurinn, sem er um tvítugt, hafi yfirgefið herbergið, sem var á annarri hæð hússins, og læst því eftir að hann hafði borið eld að rúminu.

Í fyrri lið ákærunnar segir ennfremur, að manninum hafi mátt vera ljóst að með háttsemi sinni hafi íbúum á annarri hæð hússins verið bersýnilegur lífsháski búinn, en eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að hluti annarrar hæðar hússins varð alelda og með þessi olli ákærði eignatjóni og hættu á frekara eignatjóni hefði eldurinn ekki verið slökktur fljótlega. Íbúar komust út stuttu eftir að eldurinn kom upp.

Í seinni lið ákærunnar er maðurinn ákærður fyrir eignaspjöll með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 7. febrúar í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hringbraut 130, skemmt dýnu með því að taka áklæðið utan af dýnunni og rífa hana í marga hluta.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá gerir lögreglustjórinn á Suðurnesjum kröfu um að maðurinn greiði skaðabætur að fjárhæð 27.680 kr. vegna dýnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert