Gylfi: Tilbúin í nýja þjóðarsátt

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ernir Eyjólfsson

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins var aðalræðumaður á 1. maí hátíðarhöldunum í Hafnarfirði í dag. Hann gerði væntanlegar kjaraviðræður og ósk verkalýðshreyfingarinnar um fastgengisstefnu meðal annars umræðuefni í ræðu sinni. Þá  sagði hann að verkalýðshreyfingin væri tilbúin í nýja þjóðarsátt.

Óásættanlegt atvinnuleysi

Gylfi sagði að ástandi hér á landi væri algjörlega óásættanlegt, jafnvel þótt náðst hafi að lækka atvinnuleysi nokkuð. „Þótt nú hafi dregið úr skráðu atvinnuleysi er það enn með öllu óásættanlegt. Hátt í 9.000 félagar okkar eru skráðir atvinnulausir en þessar tölur segja þó ekki alla söguna því sá hópur fer vaxandi sem fullnýtt hefur rétt sinn til atvinnuleysisbóta eða hreinlega yfirgefið landið í atvinnuleit.“

Þá sagði hann húsnæðismálin vera í miklum ólestri. „Ungt fólk sem er að hefja búskap og lágtekjufólk hefur enga raunhæfa valkosti um ásættanleg húsnæðisúrræði og greiðslubyrði  vegna húsnæðisöflunar er með öllu óásættanleg. Skiptir þá engu hvort við erum að tala um kaup á eigin húsnæði eða leigu,“ sagði Gylfi.

Til í að skoða þjóðarsátt

Sagði Gylfi að í aðdraganda kosninganna hefðu stjórnmálaleitogar talað fyrir þörf á samstöðu við atvinnulífið og að koma á þjóðarsátt. Taldi hann að svar verkalýðshreyfingarinnar við þessu væri jákvætt, en að skýrt þurfi að vera hverjar helstu áherslurnar ættu að vera.

„Krafan er þjóðarsátt um efnahagslegan stöðugleika og aukinn kaupmátt,“ sagði Gylfi, en hann nefndi í því samhengi að krafan væri að til kæmi aukinnar fjárfestingar í atvinnulífinu, fjölgun starfa og eflingu heilbrigðis- og velferðarkerfisins.

Hann sagði að í næstu kjarasamningnum væri nauðsynlegt að leggja grunn að markvissum aðgerðum til að auka kaupmátt launa með kauphækkunum sem ekki eru jafnóðum teknar af fólki í gegnum verðbólguna sem vinna verður bug á og ekkert gagnast betur í kjarabaráttu dagsins en stöðugleiki með lágri verðbólgu og lágum vöxtum. 

Fastgengi og lækkun stýrivaxta

Sagði Gylfi ljóst að Íslendingar myndu sitja uppi með íslensku krónuna næstu árin og því yfrði að leggaja höfuðáherslu á að ná samstöðu um stefnu og aðgerðir á sviði gengis- og peningamála á næstu mánuðum og misserum.

„Við hljótum því að ræða það við nýja ríkisstjórn hvort pólitískur vilji sé til þess að skapa stöðugleika í gengismálum og jafna starfsskilyrði atvinnulífsins með því að festa gengi krónunnar og lækka stýrivexti í skjóli gjaldeyrishaftanna,“ sagði Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert